Körfubolti

Lewis Clinch sendir Grindavík tóninn: "Þekktu þitt eigið virði“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Lewis Clinch sendir Grindavík tóninn.
Lewis Clinch sendir Grindavík tóninn. vísir/eyþór
Lewis Clinh Jr. fer ekki fögrum orðum um körfuknattleiksdeild Grindavíkur á Facebook-síðu sinni í dag en hann lék með liðinu á síðustu leiktíð er liðið fór í úrslit.

Clinch heldur utan um fyrirtækið Pro Guard Development og þar skrifar hann athyglisverða færslu um Grindavík. Hann segir að ástæðan fyrir því að hann hafi ekki spilað með Grindavík á þessari leiktíð sé sú að hann vildi ekki lækka laun sín.

„Mitt fyrrum félag vildi ekki fá mig til baka því ég vildi ekki koma fyrir minni mánaðarlaun. Áður en ég kom síðast höfðu þeir markmið um að halda sér í deildinni og þeim var spáð áttunda sætinu,” sagði Clinch í færslunni.

„Ég sagði þjálfaranum og stjórninni að við myndum gera meira en það, það væri klárt. Við enduðum í fjórða sætinu og töpuðum í úrslitunum."

Grindavík tapaði 3-2 í rosalegri rimmu gegn KR á síðustu leiktíð en Clinch átti stórgott tímabil. Hann skoraði að meðaltali 21 stig, sex fráköst og fimm stoðsendingar. Hann var með framlag upp á 18,8 að meðaltali.

„Á þessu ári rétt komust þeir í úrslitakeppni og var sópað í fyrstu umferðinni. Þekktu þitt eigið virði og stattu á þínu,” en færslu Clinch má sjá hér að neðan. Þar fylgir myndband af nokkrum tilþrifum hans á síðustu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×