Innlent

Landvernd vill Þingvallaveg í umhverfismat og krefst stöðvunar

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Þingvallavegur er fjölfarinn, ekki síst vegna mikillar fjölgunar ferðamanna.
Þingvallavegur er fjölfarinn, ekki síst vegna mikillar fjölgunar ferðamanna. Vísir/Vilhelm
Landvernd hefur kært ákvörðun Skipulagsstofnunar þess efnis að endurbætur á Þingvallavegi milli þjónustumiðstöðvar og syðri vegamóta við Vallarveg í Bláskógabyggð skuli ekki háðar mati á umhverfisáhrifum.

Í kæru Landverndar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að endurbætur á Þingvallavegi verði stöðvaðar á meðan kærumálið er hjá nefndinni.

„Þessi krafa er gerð til að koma í veg fyrir yfirvofandi náttúruspjöll,“ segir í kærunni. „Fyrir liggur að framkvæmdaraðilar eru tilbúnir að hefja verkið á næstu vikum eða mánuðum.“

Í rökstuðningi sínum vísar Landvernd til ýmissa verndarákvæða sem eiga við um svæðið. Svæðið njóti verndar samkvæmt lögum um þjóðgarðinn á Þingvöllum og samkvæmt skráningu á Heimsminjaskrá UNESCO. Einnig sé vistkerfi á svæðinu afar viðkvæmt.

Jafnframt sé ljóst að áhrif á birkiskóg og eldhraun á svæðinu verði neikvæð, en þessi svæði njóta sérstakrar verndar samkvæmt náttúruverndarlögum.

Þá bendir Landvernd á að í ákvörðun Skipulagsstofnunar komi fram að áhrif á fernar fornleifar verði neikvæð og óafturkræf. Þó séu áhrifin ekki talin breyta einkennum jarðminja í þjóðgarðinum á Þingvöllum.

„Skipulagsstofnun segir þrátt fyrir ofangreint að endurbætur á Þingvallavegi séu ekki líklegar til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfis­áhrif. Landvernd bendir aftur á móti á framangreindar niðurstöður stofnunarinnar sem sýna sannarlega neikvæð umhverfisáhrif. Hvenær verða umhverfisáhrif framkvæmda umtalsverð?“ segir í kærunni.

Landvernd telur málið vanreifað og að full ástæða sé til að opna fyrir samráð meðal almennings um framkvæmdina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×