Innlent

Pikkfesti bílinn við Réttarholtsskóla

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Lögreglan þurfti að kalla til dráttarbíl.
Lögreglan þurfti að kalla til dráttarbíl. VÍSIR/VILHELM
Vegfarendur í nágrenni við íþróttahús Réttarholtsskóla tilkynntu lögreglu um bifreið sem spólaði á grasbala við Ásgarð á tíunda tímanum í gærkvöldi.

Er lögregla kom á vettvang var ökumaðurinn búinn að festa bifreiðina þannig að henni varð ekki bifað án aðstoðar dráttarbifreiðar sem kallað var til.

Ökumaðurinn er sagður hafa verið ölvaður undir stýri og eftir blóðsýnatöku var hann því vistaður í fangaklefa meðan mál hans er til skoðunar.

Hann er jafnframt grunaður um að hafa ekið, eða í það minnsta spólað, án ökuréttinda og utanvegaakstur. Þá kann að fara svo að hann verði jafnframt sóttur til saka fyrir eignaspjöll.

Af öðrum ökumönnum er það helst að segja að vímaður ökumaður er talinn hafa stolið bifreið sem hann ók eftir Strandgötu í Garðabæ. Hann á að sama skapi að hafa verið próflaus.

Svipaða sögu er að segja af ökumanni sem var stöðvaður við Suðurfell, hann er talinn hafa verið vímaður, án ökuréttinda og með fíkniefni í fórum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×