Körfubolti

Nýliði á fertugsaldri sló í gegn hjá Lakers

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Ingram fagnar eftir að hafa sett niður þrist gegn Rockets. Hann setti fjóra þrista í leiknum.
Ingram fagnar eftir að hafa sett niður þrist gegn Rockets. Hann setti fjóra þrista í leiknum. vísir/getty

Lífið getur verið skrítið og það þekkir Andre Ingram vel. Í sömu vikunni kenndi hann unglingum stærðfræði og spilaði svo körfubolta fyrir LA Lakers með Magic Johnson og Will Ferrell í stúkunni.

Þetta er búin að vera ótrúlegasta vika í lífi hins 32 ára gamla Andre Ingram sem þreytti loksins frumraun sína í NBA-deildinni eftir að hafa reynt að komast að í deildinni í tíu ár. Elsti nýliði deildarinnar.

Á þessum tíu árum hefur hann leikið 384 leiki í G-deildinni, sem er B-liðs deildin í NBA, og aldrei gefist upp.

Lakers gerði við hann tveggja leikja samning og óhætt er að segja að hann hafi nýtt tækifærið með stæl í fyrri leiknum.

Hann skoraði 19 stig, hitti úr fjórum af fimm þriggja stiga skotum, sem er fjórða besta frammistaða nýliða í sögu LA Lakers! Aðeins Magic Johnson, Nick Van Exel og Jerry West hafa byrjað feril sinn hjá Lakers betur.„Flestir sem hafa reynt við körfuboltadrauminn eru löngu búnir að gefast upp. Það eru ekki miklir peningar í deildinni hans þrátt fyrir mikla og erfiða vinnu. Það reynir á og sýnir hversu sterkur Andre er andlega,“ sagði Luke Walton, þjálfari Lakers.

Ingram sjálfur var auðvitað í skýjunum með sína frammistöðu.

„Andrúmsloftið var rafmagnað. Þetta var ótrúlegt og upplifun sem kemur aðeins einu sinni á lífstíðinni,“ sagði Ingram brosandi en hann var að spila gegn Houston sem er ekki með neina pappakassa í sínu liði. Ein af stjörnum Houston hrósaði honum mikið.

Ingram í leiknum gegn Houston. vísir/getty

„Ég sagði við hann eftir leikinn að ég bæri mikla virðingu fyrir honum. Eftir að hafa djöflast í G-deildinni í tíu ár og fá svo tækifæri og spila svona. Það er ansi sérstakt,“ sagði Chris Paul, leikmaður Houston, en Houston vann leikinn þrátt fyrir frammistöðu Ingram.

Seinni leikurinn á samningi Ingram fór fram í nótt og þá vann Lakers nágranna sína í Clippers. Ingram fékk að spila í 34 mínútur og skoraði 5 stig, tók 3 fráköst og gaf 6 stoðsendingar. Lakers vann með 23 stigum er hann var inn á vellinum.

Á þessum þriggja daga samningi við Lakers fær hann rúmlega 13 þúsund dollara í laun en árslaunin í G-deildinni eru 19 þúsund dollarar.

Samhliða spilamennsku í G-deildinni hefur Ingram verið að kenna stærðfræði en hann er með gráðu í eðlisfræði.

NBA


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.