Fótbolti

Fókusinn hjá Wenger á Evrópudeildinni

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Wenger verður að vinna Evrópudeildina til að fá sæti í Meistaradeildinni á næsta tímabili
Wenger verður að vinna Evrópudeildina til að fá sæti í Meistaradeildinni á næsta tímabili vísir/getty
Leikur Arsenal og CSKA Moskvu í Evrópudeild UEFA kvöld ætti að vera lítið meira en formsatriði eftir 4-1 sigur Arsenal á heimavelli í fyrri leik liðanna í síðustu viku. Arsene Wenger fer þó ekki inn í þann leik af varkærni því hann ætlar sér að vinna Evrópudeildina.

Í febrúar sagði Wenger ótímabært að setja allan fókus á Evrópudeildina en nú hefur hann skipt um skoðun.

„Evrópudeildin er okkur mikilvæg og við erum komnir á þann stað þar sem við einbeitum okkur að henni því möguleikar okkar á að komast hærra í úrvalsdeildinni eru mjög, mjög, mjög litlir,“ sagði Wenger.

„Evrópudeildin er eitt af okkar helstu markmiðum á tímabilinu.“

Arsenal er í sjötta sæti í ensku úrvalsdeildinni, 13 stigum frá Tottenham í fjórða sætinu þegar sex umferðir eru eftir.

Skytturnar eru í nákvæmlega sömu stöðu og Barcelona var í Meistaradeildinni fyrr í vikunni, með 4-1 forystu eftir fyrri leik á heimavelli og allt útlit fyrir að þeir væru með bókað sæti í undanúrslitum. Roma sló hins vegar spænsku meistaraefnin úr leik með frábærum 3-0 sigri á heimavelli sínum.

Wenger segir þessi úrslit hafa komið á fullkomnum tíma sem viðvörun fyrir leikmenn sína.

Granit Xhaka flaug ekki með Arsenal til Rússlands vegna veikinda, Henrikh Mkhitaryan er meiddur á hné og Pierre-Emerick Aubameyang má ekki taka þátt í Evrópukeppninni.

Leikur CSKA og Arsenal er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport klukkan 19:05 í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×