Viðskipti innlent

Fjárhagsstaða heimilanna ekki verið betri í tvo áratugi

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Fjárhagsstaða íslenskra heimila hefur ekki verið sterkari í tvo áratugi. Þetta segir framkvæmdastjóri fjármálastöðugleika hjá Seðlabanka Íslands. Skuldsetning er að minnka og sparnaður heimilanna heldur áfram að aukast.

Nýjasta hefti Fjármálastöðugleika, rits Seðlabankans um sama efni, kom út í dag. Í ritinu kemur fram að seint á árinu 2016 hafi skuldir heimilanna tekið að aukast en fram að því höfðu þær lækkað jafnt og þétt frá árinu 2009. Á árunum 2010-2016 lækkuðu skuldir heimilanna sem hlutfall af landsframleiðslu að meðaltali um 7 prósentur á ári, mest um 12 prósentur á árinu 2015. 

Kröftugur vöxtur hefur verið í einkaneyslu að undanförnu og gerir Seðlabankinn ráð fyrir að sú þróun haldi áfram í einhvern tíma. Á móti kemur að allt fram á síðasta ár jókst kaupmáttur ráðstöfunartekna hraðar en einkaneysla sem skilaði sér í auknum sparnaði. Þannig jukust innlán heimilanna um 11,4 prósent í fyrra.

Harpa Jónsdóttir framkvæmdastjóri fjármálastöðugleika segir að sterk heimilanna um þessar mundir eigi sér margar birtingarmyndir.

„Fjárhagsstaða heimilanna er sú sterkasta sem við höfum séð í tuttugu ár. Skuldir sem hlutfall af landsframleiðslu hafa ekki verið lægri og skuldir sem hlutfall af tekjum hafa heldur ekki verið lægri. Á sama tíma sjáum við að eignastaða heimilanna, hrein eign þeirra, er sú mesta sem við höfum séð í tuttugu ár,“ segir Harpa.   






Fleiri fréttir

Sjá meira


×