Innlent

Segir 1.629 börn á virkum biðlista eftir leikskólaplássi í Reykjavík

Birgir Olgeirsson skrifar
Á biðlista eftir leikskólaplássi hjá borgarreknum leikskólum eru samtals 1.155 börn fædd á árunum 2013 til 2016 ásamt yngri börnum með forgang
Á biðlista eftir leikskólaplássi hjá borgarreknum leikskólum eru samtals 1.155 börn fædd á árunum 2013 til 2016 ásamt yngri börnum með forgang Vísir
Alls eru 1.629 börn á biðlista eftir leikskólaplássi í Reykjavík og vantar að ráða 39 starfsmenn ef miðað er við að öll laus pláss væru nýtt. Þetta kemur fram í svari sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs borgarinnar við fyrirspurn Mörtu Guðjónsdóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

Óskað var eftir upplýsingum um biðlista eftir leikskólaplássum sem yrði sundurliðaður eftir leikskólum og aldri barna. Jafnframt var óskað eftir upplýsingum um hversu mörg stöðugildi eru á leikskólunum og hversu mörg leikskólapláss eru til staðar á leikskólunum.

Á biðlista eftir leikskólaplássi hjá borgarreknum leikskólum eru samtals 1.155 börn fædd á árunum 2013 til 2016 ásamt yngri börnum með forgang. Marta segir í samtali við Vísi að í raun séu 1.629 börn á biðlista eftir leikskólaplássi í Reykjavík þegar einkareknir leikskólar, sem borgað er með, eru taldir með. Það kom fram í töflu sem fylgdi svarinu þar sem biðlistarnir eru sundurliðaðir.

Til að bjóða börnum laus pláss, eins og stýringin á leikskólakerfinu Völu er í dag, vantar 18,5 stöðugildi til viðbótar eða alls 39,6 stöðugildi.vísir/vilhelm
Af þeim 1.155 börnum sem eru á biðlista eftir leikskólaplássi hjá borgarreknum skólum eru 377 flutningsumsóknir á milli borgarrekinna leikskóla eða frá sjálfstætt starfandi leikskólum yfir á borgarrekna leikskóla. Í svarinu kemur fram að áætla megi að öllum þessum börnum verði boðin vist í leikskólum borgarinnar fyrir haustið 2018.

„Eldri börn sem eru á biðlista (2013 til 2015) og eru ekki með leikskóla í Reykjavík eru yfirleitt nýflutt til borgarinnar og eru þess vegna á bið eftir plássi. Einnig eru sum 2015 börn enn í vistun hjá dagforeldri,“ segir í svari Helga Grímssonar, sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, sem fékk á fundi skóla- og frístundaráðs í gær.

Fjöldi barna á biðlista sem fædd eru í janúar til febrúar 2017 eru 148, fjöldi barna á biðlista sem fædd eru í mars til apríl 2017 eru 165 og börn á biðlista sem fædd eru í maí til júní 2017 eru 161.

Fjöldi stöðugilda á leikskólum borgarinnar er samtals 1421,8. Stöðugildi leikskóladeildar Dalskóla, Ártúnsskóla og Bergs eru talin með í sameinuðum starfsstöðvum Dalskóla, Ártúnsskóla og Klébergsskóla og eru því ekki inni í þessari tölu.

Fjöldi barna á leikskólum borgarinnar í dag er 5575 þar af eru síðan 1310 börn með lokadagsetningu á vistun og munu hætta fyrir haustið, að því er fram kemur í svari Helga. Hann segir flest þessara barna fædd 2012 og munu því fara í 1. bekk í grunnskóla í haust. Einnig eru önnur börn með lokadagsetningu og eru það yfirleitt börn sem eru að flytja úr sveitarfélaginu. Heildarfjöldi leikskólaplássa miðað við að leikskólarnir séu búnir að vista í öll pláss er 5.744.

Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.Aðsend
Vantar 39 stöðugildi til að fullnýta pláss

Marta spurði einnig hver sé staða starfsmannamála á leikskólum borgarinnar miðað við að öll laus pláss væru nýtt.

Í svari frá sviðsstjóranum kom fram að í leikskólana vantaði 21,1 stöðugildi til að full manna leikskóla miðað við þau börn sem voru í vistun 21. febrúar síðastliðinn.

Um var að ræða tvenn stöðugildi deildarstjóra, 7,5 stöðugildi leikskólakennara/starfsfólks á deild, 4,6 stöðugildi við stuðning og sjö stöðugildi í annað.

Til að bjóða börnum laus pláss, eins og stýringin á leikskólakerfinu Völu er í dag, vantar 18,5 stöðugildi til viðbótar eða alls 39,6 stöðugildi.

Segir barnafólk í Reykjavík leita annað

Marta segir í samtali við Vísi að um grafalvarlega stöðu sé að ræða því barnafólk hafi hingað til leitað í auknum mæli í nágrannasveitarfélögin og út á landsbyggðina því húsnæðisverð er of hátt í Reykjavík.

„Nú er komin enn önnur ástæða fyrir því að barnafólk er farið að leita út fyrir Reykjavík því þau koma ekki börnum fyrir á leikskóla. Það er grafalvarlegt að við séum að missa blómann af ungu fólki frá Reykjavík til annarra sveitarfélaga bæði vegna skorts á húsnæði og leikskólaþjónustu. Manneklan er svo mikil að það eru 179 laus pláss á leikskóla sem ekki er hægt að nýta því við getum ekki mannað þau. Við það bætist langur biðlisti sem er bara að fara að lengjast,“ segir Marta.

Vilja bæta kjör

Hún segir borgarstjórnarflokk Sjálfstæðisflokksins vilja bregðast við þessari stöðu með því að bæta kjör og starfsaðstöðu leikskólakennara og leikskólastarfsfólks.

„Það liggur fyrir að það þarf að fara í róttækar aðgerðir til að leysa vandann því við getum ekki horft upp á að fólk geti ekki sinnt sinni vinnu og þurfi að vera heima með börnunum annað hvort vegna þess að það kemur ekki börnunum á leikskólann eða að deildir eru lokaðar og það þarf að sækja börnin sín á miðjum vinnudegi,“ segir Marta.

„Við myndum vilja sjá meiri sveigjanleika í sambandi við starfsemina á leikskólanum þannig að við myndum laða til okkar fólk í þessi störf. En í fyrsta lagi þarf að bæta kjörin þannig að fólk fáist í þessi störf. Það er það sem blasir við.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×