Lífið

Enginn glamúr á tónleikaferðalögum

Stefán Þór Hjartarson skrifar
Þeir Keli, Gauti og Bjössi lenda vafalaust í mörgum skemmtilegum ævintýrum á ferðalaginu í sumar.
Þeir Keli, Gauti og Bjössi lenda vafalaust í mörgum skemmtilegum ævintýrum á ferðalaginu í sumar.
Athafnamaðurinn Gauti Þeyr Másson er alltaf að bralla eitthvað og nú er hann að byrja með glænýja þáttaröð sem nefnist 13.13 – um er að ræða þrettán þætti sem koma á þrettán dögum og munu sýna líf Gauta, Björns Vals, plötusnúðs hans, og Hrafnkels, Kela, trommara, á tónleikaferðalagi um landið. Þetta er tónleikaröð, þrettán tónleikar eins og nafnið gefur til kynna, á þrettán mismunandi stöðum á landinu. Til dæmis verða tónleikar í Flatey og Jarðböðunum í Mývatnssveit.

„Ég var alltaf með þessa hugmynd og hef verið í þrjú ár. Mig langaði alltaf að gera sjónvarpsþátt þar sem væri fjallað um það að túra í stað þess að einblína á tónlistina – sem sagt undirbúninginn fyrir tónleika. Upphaflega hafði ég hugsað að þetta yrði ég, Úlfur Úlfur og Agent Fresco, samningaviðræður við RÚV gengu alveg langt en vegna fjárskorts varð aldrei neitt úr þessu. Ég vildi ekki leyfa þessu að verða að engu því að mér fannst þetta geggjuð hugmynd. Ég vil ekkert skafa utan af því – ég er að gera þetta til að fanga ákveðna stemmingu á einhverjum ákveðnum punkti í rappsenunni en ég er líka að gera þetta til að egó-peppa sjálfan mig – ég elska athygli og því elska ég að spila á tónleikum.“

Upphaflega áttu þetta að vera átta þættir, hver þeirra tuttugu mínútur að lengd og sniðnir að sjónvarpi en því var þó ýtt út af borðinu og þeir verða gefnir út á netinu.



Hrafnkell Örn Guðjónsson
„Ég fékk þá þessa hugmynd að gera þrettán þætti á þrettán dögum, sem ég skil reyndar ekki hvernig á að vera auðveldara – „hei, minnkum verkefnið og gerum fleiri þætti á færri dögum,“ segir Gauti og hlær. „En ég fæ margar vondar hugmyndir og það er einn maður sem segir já við þeim öllum því að hann er nógu klikkaður til að framkvæma þær með mér – það er Freyr Árnason leikstjóri. Besta dæmið um það er líklega þegar við fórum á fund hjá Nova, þegar ég var alveg óþekktur, að biðja þau um að kaupa milljón plötur af mér – hugmyndin var að fara í auglýsingastríð við STEF og fá allar gullplöturnar.“

Sú hugmynd gekk ekki upp. Hins vegar hafa aðrar hugmyndir þeirra félaga, Gauta og Freys, gengið upp – til að mynda jólatónleikarnir Julevenner, sem slógu í gegn, þrátt fyrir að vera smá klikkuð hugmynd sem byrjaði sem grín, og voru tilnefndir til Íslensku tónlistarverðlaunanna. Freyr mun leikstýra 13.13 og koma með í ferðina með Gauta, Birni og Kela. Svo verður það Árni Hrafn sem er „tour manager“ og myndatökumaður og klippari.

„Þetta verður allt sýnt á emmsje.is þar sem þættirnir munu birtast daglega. Hugmyndin er að þeir detti inn í hádeginu daginn eftir – ef við erum að spila í Vestmannaeyjum í kvöld þá kemur þátturinn í hádeginu á morgun.“

Verður þetta raunveruleikaþáttur þar sem þið ræðið vandamál ykkar á milli sena og svona, kannski einhver kosinn í burtu? „Það var alltaf hugmyndin mín! Upprunalega átti þetta að vera þannig – en nei, þetta verður því miður ekki þannig því að tíminn er naumur. En hver veit hvað við gerum við efnið eftir á. Bjútíið við þetta er það að þetta er enginn fokking glamúr – þetta ert bara þú og tveir táfýluvinir þínir. Stundum mæta 500 manns og stundum mæta líka bara fimm. Ég held að það sé hollt fyrir egóið að fólk sjái alvöru stemminguna við það að vera íslenskur tónlistarmaður að túra um landið.“

Gauti segist ætla að fá gesti með í þættina og að nokkrir séu komnir á blað en það eigi að koma á óvart hverjir það eru. Það eru þó laus pláss á fjórum stöðum fyrir gest.

„Ef fólk er í stuði, sér þessa frétt og vill taka gigg með okkur þá bara … „HOLA“.

Miðasala á tónleikana hefst miðvikudaginn 18. apríl.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×