Innlent

Mengun alltaf undir mörkum en gleymdist að reikna með lykt

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Kostnaður vegna eftirlits í Helguvík var um 20 milljónir króna.
Kostnaður vegna eftirlits í Helguvík var um 20 milljónir króna. VÍSIR/VILHELM
Á þeim tíma sem verksmiðja United Silicon starfaði fór losun aldrei yfir heimiluð mörk á þeim mengunarefnum sem tekið var á í starfsleyfi verksmiðjunnar. Við útgáfu starfsleyfisins var hins vegar ekki gert ráð fyrir umfangsmiklum lyktaráhrifum sem af starfseminni hlutust.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í skýrslu umhverfis- og auðlindaráðherra um aðdraganda að útgáfu starfsleyfis til kísilverksmiðju Sameinaðs sílikons hf. í Helguvík. Skýrslan var unnin að beiðni Alþingis en Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, var fyrsti flutningsmaður tillögunnar.

Í skýrslunni kemur fram að Umhverfisstofnun hafi aldrei haft jafnumfangsmikið eftirlit með nokkrum rekstri en kostnaður af eftirlitinu nam tæpum 20 milljónum króna. Sá reikningur var sendur á Sameinað sílikon hf. Sú reynsla stofnunarinnar verður höfð til hliðsjónar við undirbúning starfsleyfa á sambærilegum rekstri.

Sjá einnig: Lífeyrissjóðir óska eftir sakamálarannsókn á Magnúsi Garðarssyni

Stefnt er að því að ítarlegri ákvæði verði að finna í útgefnum starfsleyfum meðal annars hjá PCC við Bakka á Húsavík.

United Silicon var tekið til gjaldþrotaskipta í janúar en félagið hafði farið í greiðslustöðvun í ágúst í fyrra. Starfsemi verksmiðjunnar var stöðvuð af Umhverfisstofnun í september síðastliðnum.

Að beiðni Alþingis vinnur Ríkisendurskoðun nú að úttekt og gerð skýrslu um aðdraganda að útgáfu starfsleyfis til kísilverksmiðjunnar. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið auk hlutaðeigandi stofnana mun taka til skoðunar þær ábendingar sem fram koma í væntanlegri skýrslu.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×