Enski boltinn

Salah róar stuðningsmenn Liverpool með þessum orðum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohamed Salah.
Mohamed Salah. Vísir/Getty
Mohamed Salah hefur verið stórkostlegur á sínu fyrsta tímabili með Liverpool. Stuðningsmenn Liverpool fagna því en óttast líka janframt innst inni að missa Salah eins og Luis Suarez og Philippe Coutinho sem pressuðu báðir á því að losna frá félaginu.

Barcelona keypti þá Luis Suarez og Philippe Coutinho en er þá Mohamed Salah mögulega líka á förum? Liverpool hefur líka selt þá Raheem Sterling og Fernando Torres síðan að Fenway Sports Group eignaðist félagið.

Mohamed Salah hefur nú róað stuðningsmenn Liverpool með því að segja að hann sé mjög ánægður hjá félaginu.

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, hefur varað félög við því að Mohamed Salah sé ekki til sölu en það gerði hann líka með Philippe Coutinho og við sáum hvernig það endaði. Það eru því orð Salah og fréttir úr hans innsta hring sem skipta kannski meira máli.

Það er ekki hægt að heyra annað á Mohamed Salah sjálfum að hann sé kominn til að vera leikmaður Liverpool.  „Það er eitthvað mjög sérstakt að spila fyrir Liverpool. Meistaradeildarkvöldin eru líka mjög sérstök fyrir stuðningsmennina. Maður finnur það á götum borgarinnar,“ sagði Mohamed Salah við CNN.

„Ég hef aldrei áður fundið fyrir andrúmslofti áður eins og það var í fyrri leiknum við Manchester City,“ sagði Salah og bætti við:

„Þegar við sáum dráttinn þá vissum við allir að þetta yrði mjög erfitt. Ég sagði að við yrðum bara að vera jákvæðir og vinna. Það var það sem við gerðum,“ sagði Salah.

Telegraph fjallar um Mohamed Salah og framtíð hans og þar kemur fram að stuðningsmenn Liverpool geta glaðst yfir því að umboðsmaður Mohamed Salah, Ramy Abbas, er ekki að vinna í því að koma leikmanni sínum til annars félags, heldur er hann að reyna að hjálpa Egyptanum að koma sér sem best fyrir í Liverpool.





Eigendurnir í Fenway Sports Group eru líka að hugsa um að byggja upp sigurlið á Anfield og með kaupum á nokkrum öflugum mönnum í sumar þá gæti Liverpool tekið næsta skref í að enda bið sína eftir enska meistaratitlinum.

Til að Liverpool geti það þá verður félagið að hætta að selja sína bestu leikmenn. Miðað við orð Mohamed Salah og fréttir úr hans herbúðum þá eru góðar líkur á því að svo verði raunin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×