Erlent

Fyrrverandi forsætisráðherra Pakistans útilokaður frá stjórnmálum

Kjartan Kjartansson skrifar
Sharif hefur í þrígang setið á stóli forsætisráðherra frá 10. áratugnum. Hæstiréttur hefur nú bannað honum að gegna opinberu embætti aftur.
Sharif hefur í þrígang setið á stóli forsætisráðherra frá 10. áratugnum. Hæstiréttur hefur nú bannað honum að gegna opinberu embætti aftur. Vísir/AFP
Hæstiréttur Pakistans hefur bannað Nawaz Sharif, fyrrverandi forsætisráðherra landsins, að gegna opinberu embætti  nokkru sinni aftur. Sharif var vikið úr embætti í sumar vegna spillingar.

Upphaflega bannaði dómstóllinn Sharif að gegna embætti vegna greiðslna sem hann hafði fengið og ekki gefið upp í júlí. Með dómnum í dag var skorið úr óvissu um hvort að bannið væri tímabundið eða fyrir lífstíð, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Þrátt fyrir að hafa verið settur af sem forsætisráðherra hefur Sharif enn tögl og hagldir í Múslimabandalagi Pakistans-Nawaz, stjórnarflokki landsins.

Spillingarrannsókn á Sharif hófst eftir að Panamaskjölin svonefndu urðu opinber árið 2016. Í þeim kom fram að fjölskylda Sharif hafði notað aflandsfélög til þess að festa kaup á lúxusfasteignir í London.

Bloomberg-fréttastofan segir að að Sharif, þrjú börn hans og Ishaq Dar, fjármálaráðherra, eigi öll réttarhöld yfir höfði sér vegna spillingar. Þau hafa öll neitað sök og Sharif hefur sagst vera fórnarlamb pólitískra ofsókna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×