Innlent

Fjórar handtökur í tengslum við umfangsmikla kannabisræktun í Þykkvabæ

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Þrír Pólverjar og einn Íslendingur voru handteknir á miðvikudaginn grunaðir um umfangsmikla kannabisræktun í iðnaðarhúsnæði í Þykkvabæ á Suðurlandi. RÚV greindi fyrst frá.

Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við Vísi að ræktun hafi staðið yfir í einhverja mánuði, bæði í viðkomandi húsnæði en auk þess hafi plöntur verið geymdar í gámum.

Plönturnar voru í miklum blóma.Lögreglan

Sjö milljónir í upprúlluðum seðlum

Í húsnæðinu fundust 322 kannabisplöntur í blóma, um sextán kíló af kannabislaufum en athygli vakti að hluti þeirra var frosin.

Karl Steinar segir lögreglu því velta því fyrir sér hvort ræktendurnir hafi stefnt að útflutningi.

Ekki sé vanalegt að hluti ræktunar sé frosinn.

Þá fundust sjö milljónir í reiðufé, seðlar í búntum eins og sjá má á myndinni hér að neðan.

„Reiðuféð var falið hér og þar í fatnaði, mjög sérstakt,“ segir Karl Steinar sem er nýtekinn við stöðu yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu á nýjan leik eftir veru hjá Europol.

Mönnunum fjórum sem voru handteknir í fyrradag hefur öllum verið sleppt.

Óljóst er hvað gert verði í framhaldinu, þ.e. hvort farið verði fram á farbann eða ekki. 

Lagt var hald á um sjö milljónir króna í reiðufé.Lögreglan

Um 1500 plöntur á rúmum mánuði

Að aðgerðunum komu lögregluliðin á höfuðborgarsvæðinu og Suðurlandi og embætti ríkislögreglustjóra, en rannsókn málsins er jafnframt unnin í samvinnu við tollyfirvöld, pólsku lögregluna, m.a. Asset Recovery Office í Varsjá, og Europol að því er fram kemur í tilkynningu frá lögreglu.

Karl Steinar segir samstarf þeirra stöðugt styrkjast.

Einn maður var handtekinn á vettvangi en hinir þrír annars staðar á Suðurlandi og á höfuðborgarsvæðinu. Áður hafði lögreglan lagt hald á 1,5 kg af kannabisefnum og nokkuð af e-töflum og kókaíni við húsleit í skrifstofurými í Hafnarfirði í tengdu máli. Þar var einn handtekinn.

Karl Steinar segir að til viðbótar við plönturnar 322 hafi lögreglan lagt hald á um 1200 plöntur undanfarinn rúman mánuð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×