Umfjöllun og viðtöl: Tindastóll - ÍR 90-87 | Stólarnir í úrslit

Hákon Ingi Rafnsson skrifar
Pétur Rúnar Birgisson.
Pétur Rúnar Birgisson. Vísir/Eyþór
Í kvöld mættust Tindastóll og ÍR í fjórða leik liðanna í 4-liða úrslitum Domino´s deildarinnar í Síkinu.

Bæði lið byrjuðu fyrsta leikhluta af krafti og voru jöfn 6-6 eftir 2 mínútur Tindastóll tók þá lítinn sprett og komust 5 stigum yfir en ÍR-ingar voru ekki lengi að jafna metin 11-11. En sama hvað gerðist í 1 leikhluta þá áttu bæði liðin alltaf svör, leikhlutinn kláraðist 26-27.

Bæði lið áttu í erfiðleikum með að skora í byrjun annars leikhluta en það var vegna þess að vörnin var alveg til fyrirmyndar og það var virkilega erfitt að finna opið skot alls staðar á vellinum. Það var ekki fyrr en undir lok leikhlutans þegar heimamenn duttu í gang og náðu að komast í 7 stiga forystu og héldu henni út að hálfleik.

Í þriðja leikhluta datt Sigurkarl Róbert í gang og skoraði fyrstu 8 stig ÍR í leikhlutanum og gerði þetta aftur að jöfnum leik. Tindastóll var með yfirhöndina í leikhlutanum en í hvert skipti sem Tindastóll náði forystu á ÍR þá náðu ÍR-ingar að saxa hana niður ansi fljótt. En aftur undir lok leikhlutans komu heimamenn sér í 7 stiga forystu með þriggja stiga flautukörfu frá Pétri Rúnari.

Fjórði leikhlutinn byrjaði hægt en þegar fjórar mínútur voru liðnar af leikhlutanum setti Ryan Taylor niður þriggja stiga skot og kom ÍR í forystu en þá virðist sem að Antonio Hester hafi lent illa og meitt sig á ökkla og hann gat ekki spilað meira í leiknum.

Tindastóll voru fljótir að koma til baka eftir þetta og það var Viðar Ágústsson sem að kom þeim aftur yfir. Þegar 1 mínúta var eftir af 4 leikhluta þá fór Ryan Taylor á vítalínuna og átti möguleika á því að minnka muninn í 1 stig en hann klikkaði á fyrra vítinu.

Í næstu sókn þá klikkaði Sigtryggur Arnar á þriggja stiga skoti en þá var Chris Davenport tilbúinn og tróð frábærlega beint úr frákastinu. Í næstu sókn minnkaði Danero Thomas muninn í 1 stig en þá tók við löng sókn Tindastóls og hún endaði með því að Sigtryggur Arnar var settur á vítalínuna og kom muninum í 3 stig. ÍR-ingar þurftu þrist til að jafna en Matthías Orri rétt klikkaði á honum.

Hvers vegna vann Tindastóll?

Tindastóll vann vegna þess að þeir spiluðu frábæra vörn allan leikinn en ÍR var þó alls ekki langt frá því að vinna hér í kvöld.

Hverjir stóðu upp úr?

Antonio Hester var frábær í kvöld en á 30 mínútum skilaði hann 26 stigum, 8 fráköstum og 5 stoðsendingum.

Ryan Taylor var einnig virkilega góður í kvöld en hann skilaði 25 stigum og hvorki meira né minna en 18 fráköstum.

Hvað gekk illa?

Heimamenn voru að frákasta hræðilega í kvöld en ÍR unnu frákastabaráttuna með 17 fráköstum.

Hvað gerist næst?

Tindastóll eru núna komnir í úrslit Domino´s deildarinnar og mæta annað hvort KR eða Haukum. ÍR eru því miður farnir í sumarfrí.

Sigtryggur Arnar: Þetta datt bara okkar megin í kvöld

Sigtryggur Arnar, leikmaður Tindastóls, var virkilega ánægður með sigurinn í kvöld og seríuna gegn ÍR.

„Mér líður mjög vel, spenntur fyrir úrslitum, þreyttur eftir erfiða rymmu gegn grjóthörðum ÍR-ingum en er bara mjög sáttur.“

„Þetta datt okkar megin í kvöld, þeir hefðu alveg eins getað unnið þennan leik, bæði lið spiluðu eins og það væri allt undir eins og það var.“

Tindastóll mætir annað hvort KR eða Haukum í úrslitum og Sigtryggur Arnar var aðeins spurður út í það.

„Mér er alveg sama hvort liðið við fáum, það væri samt fínt að fá KR vegna þess að þá fáum við heimaleikjarréttinn.“

Borche Ilievski: Við misstum einbeitingu í lok leiksins

Borche, þjálfari ÍR, var sáttur með sína menn í kvöld.

„Ég held að við hefðum átt að vera með betri einbeitingu í lok leiksins þegar Tindastóll náði nokkrum sóknarfráköstum og eitt af því var troðsla og auðveld 2 stig. Ég vil bara óska Tindastól til hamingju þeir voru flottir í kvöld, við börðumst allir vel í kvöld en skotin duttu ekki hjá okkur.“

Borche var spurður um framtíð hans hjá ÍR.

„Ég er ekki viss hvernig þetta verður vegna þess að samningurinn minn er að klárast og ég þarf bara að setjast niður með stjórninni og við sjáum til hvort við séum að fara í rétta átt.“

Israel Martin: Við unnum vegna þess að við trúðum á sigurinn

Israel Martin var virkilega ánægður með leikinn í kvöld.

„Við unnum vegna þess að við trúðum á sigurinn í 40 mínútur.“

Antonio Hester fór meiddur af velli þegar 4 leikhluti var hálfnaður og Martin var spurður um féttir frá honum.

„Ég spurði hann og hann sagðist ekki vera tilbúinn að spila meira svo að Davenport kom inn.“

„Ég get ekki valið á milli hvort liðið væri betra fyrir okkur svo að við sjáum hvernig leikurinn fer á morgun og svo mætum við tilbúnir í næstu seríu.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira