Lífið

Geimpáfinn sjálfur gaf tvo leikmenn saman á EVE Fanfest

Birgir Olgeirsson skrifar
Geimpáfinn Charles White fyrir miðju en parið sem hann gaf saman stendur honum á hægri hönd.
Geimpáfinn Charles White fyrir miðju en parið sem hann gaf saman stendur honum á hægri hönd. Aðsend
Eve Fanfest stendur nú sem hæst en um er að ræða hátíð og ráðstefnu tölvuleikjaframleiðandans CCP. Þangað mæta þeir sem spila tölvuleikinn sem og þeir sem þróa hann. Hátíðin fer fram í tónlistar- og ráðstefnuhúsinu Hörpu en skemmtileg uppákoma átti sér stað þar í dag þegar tveir spilarar voru gefnir saman.

Það var Geimpáfinn sjálfur Charles White sem gaf parið saman við hátíðlega athöfn en vitað er til þess að önnur hjónavígsla fari fram á hátíðinni á morgun.

Charles White er starfsmaður geimvísindastofnunar Bandaríkjanna, NASA, en hann byrjaði að spila EVE-tölvuleikinn árið 2008.

White lýsti því í viðtali við vefinn Kotaku að leikurinn snúist mikið um að kanna lendur og því sé mikið af dauðum tíma þar sem færi gefst á að spjalla við aðra spilara. Hann var með eldri leikmönnum leiksins og hafði því aðra sýn á lífið en flestir og mikla reynslu.

Hann sagði marga spilara hafa rætt vandamál sín við hann. Sögðu þeir honum frá kettinum þeirra sem hafði drepist, fjölskyldumeðlimi sem hafði fallið frá eða frá öðrum erfiðleikum í einkalífinu.

White veitti þeim huggun og góð ráð og fékk fljótlega gælunafnið „Space Pope“ eða „Geimpáfinn“.

Hann varð að einskonar trúarleiðtoga í leiknum og hefur deilt lífsspeki til annarra leikmanna.

Árið 2015 mætti hann svo til Íslands á EVE Fanfest klæddur í páfabúning við mikinn fögnuð og hefur haldið því uppátæki áfram.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×