Lífið

Allir fá sama sjóvið

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Páll Óskar með verðlaunagripinn góða.
Páll Óskar með verðlaunagripinn góða. Anton Brink
Páll Óskar Hjálmtýsson býr nánast í Borgarleikhúsinu um þessar mundir. Hann fer með hlutverk Frank-N-Furter í uppfærslu leikhússins á Rocky Horror. Sýningarnar eru fimm í viku og því hefur Páll Óskar hlúð vel að sér í búningsherbergi sínu.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Páll Óskar bregður sér í þetta skemmtilega og krefjandi hlutverk því fyrir 27 árum reimaði hann á sig korselettið með leikfélagi MH.

„Ég er afar hrærður og upp með mér. Líka hissa, hreinlega vegna þess að ég hef aldrei upplifað mig sem aktívista í atlögu gegn fordómum. Ég er ekki að gera atlögu að einum né neinum. Ég er enginn baráttumaður, en ég er fyrst og fremst í liði með kærleikanum. Kærleikurinn mun ekki nást gegnum stríð. Ég hata stríð í hvaða mynd sem það birtist. Ég meika ekki fólk sem til dæmis leitar uppi átök á spjallrásum. Ég forðast dægurþras og rifrildi. Þetta er orka sem ég get ekki verið í, því hún lætur mig hreinlega deyja innan í mér. Ég upplifi mig fyrst og fremst sem söngvara og listamann. Það starf verður til þess að maður getur stundum nýtt glugga til þess að láta í sér heyra, ég vona að ég hafi gert það til að koma á framfæri lífsviðhorfum sem ég hef,“ segir Páll Óskar.

Hann segist snemma hafa tekið ákvörðun um að vera samkvæmur sjálfum sér. „Ég vildi einfaldlega troða upp fyrir alla. Þjóðfélagsstaða, stétt, aldur, kynhneigð, húðlitur. Allt þetta skiptir mig engu máli. Allir fá sama sjóvið. Á sama tíma, þá vildi ég ekki gefa neinn afslátt af hommanum í mér. Ekki heldur gagnvart börnum, unglingum, háum, lágum, ríkum jafnt sem jaðarsettum,“ segir Páll Óskar og víkur að því sem raunverulega skiptir hann máli.

„Ytra útlit þitt og aðstæður skipta engu. Hjartalag og karakter skiptir mestu máli. Ertu heiðarleg manneskja, maður orða þinna? Ég á mjög erfitt með að vera í sama herbergi og fólk sem býr yfir illum ásetningi. Á sama tíma þoli ég það ekki þegar ég er málaður sem einhver engill. Ég er það ekki baun. Ég er fullur af brestum sem ég þarf að díla við á hverjum degi. Eina leiðin til að díla við brestina er heiðarleikinn,“ leggur Páll Óskar áherslu á.

„Í gegnum þetta allt saman, öll þessi milljón viðtöl sem ég hef farið í, þá hef ég ef til vill náð að víkka sjóndeildarhring fólks sem hafði kannski rörsýn á ákveðna hluti. Ef það gerðist einhvern tíma á leiðinni síðustu ár þá er það frábært. En ég lærði það fyrir löngu að þú getur ekki stjórnað viðbrögðum fólks við því sem þú gerir. Ég get ekki stjórnað því hvort fólk klappar fyrir mér eða ekki. En ég er búinn að læra það að ég get stjórnað mínum viðbrögðum við því sem annað fólk segir og gerir við mig. Mitt viðhorf gagnvart því öllu skiptir mestu máli. Ég ræð alveg hvort jafnvel árásir annars fólks hafa áhrif á mig eða ekki. Þetta er stærsti lærdómur sem ég hef tileinkað mér í lífinu,“ segir Páll Óskar.

Páll Óskar Hjálmtýsson lék sama hlutverkið fyrir 27 árum síðan í uppfærslu leikfélags MH.Visir/Grímur Bjarnason
Ég tileinkaði mér þessi viðhorf fyrir um það bil fimmtán árum. Þá tók ég viðhorf mitt til lífsins algjörlega í gegn. En vinnan við það var einfaldari en margan gæti grunað. Ég fór einfaldlega að þakka fyrir allt.

Þetta hljómar mjög væmið, ég geri mér grein fyrir því,“ segir Páll Óskar og brosir. „Ég vakna á morgnana og þakka fyrir það að hafa vaknað. Og ég segi já takk við öllu. Ég segi já takk við því að ég hafi sjón og heyrn. Ég þakka fyrir það að geta stigið fram úr rúminu vegna þess að það geta það ekkert allir. Svo þakka ég fyrir allt sem verður á vegi mínum um daginn. Ég þakka fyrir köttinn minn, Fréttablaðið sem kemur inn um lúguna, rigninguna. Ég sé það jákvæða, það er svo mikið líf í rigningunni.

Þegar þú ferð svo út í daginn, drekkhlaðinn af þakklæti þá er ósköp lítið pláss fyrir reiði og gremju í sálartetrinu. Allt þetta dægurþras sem sækir að manni á hverjum degi. Allt þetta rex og pex hefur ósköp lítil áhrif á mann ef maður passar sig á því að lifa í þakklæti. Í þakklætinu er svo miklu auðveldara að díla við erfiðu verkefnin þegar þau koma – og trúðu mér, þau munu koma,“ segir Páll Óskar frá.

Viðhorfið segir hann hafa gagnast sér vel. „Ég hugsa alltaf, hvaða viðhorf ætlar þú að hafa gagnvart þessu verkefni. Ætlarðu að leggjast í kör og fara í fýlu? Eða ætlar þú að laga á þér hárið og gera þitt besta? Með þessu viðhorfi þá finnst mér ég hafa sigrast á mjög erfiðum hindrunum í lífinu. Hindrunum sem ég hélt við fyrstu sýn að ég gæti ekki yfirstigið,“ segir Páll Óskar.

„Eins og að vera í þessum bransa í hátt í 30 ár. Að meika næsta gigg. Nú er ég að gera fimm sýningar í hverri viku. Því fylgir verulegt álag. Ég þarf að bera næga virðingu fyrir verkefninu til þess að bera ábyrgð á sjálfum mér. Ég mæti ekki kaldur á svið heldur undirbý mig vel. Þar með sýni ég samstarfsfólki mínu og því góða fólki sem hefur keypt sér miða á sýninguna virðingu. Uppskeran er þvílík gleðisprengja á hverju kvöldi. Það er ótrúleg orka sem leysist úr læðingi á sýningum hér.“

Páll Óskar segir ákveðnum hring lokað með því að hann hafi tekið að sér hlutverk Frank-N-Furter. „Frank-N-Furter kom til mín þegar ég var fjórtán ára gamall. Í gegnum VHS-vídeóspólu sem ég leigði á Holtsgötunni. Rocky Horror varð fyrsti glugginn minn inn í ákveðinn heim sem ég vissi ekki að væri til. En í þessum heimi fann ég fólkið mitt. Þetta var fyrsti vísirinn að því að ég fór að hugsa um það að koma kannski út úr skápnum.

Rocky Horror er verkið sem hefur gefið mörgu hinsegin fólki rými. Stökkpall og kjark til þess að koma út. Á hverju kvöldi er ég hér á sviðinu að þakka fyrir mig. Og gefa það áfram. Til einhvers annars, ég veit ekki hvort það er einhver fjórtán ára gamall strákur úti í sal sem er í nákvæmlega sömu stöðu og ég var í. Það má vel vera að við séum að gera það nú þegar,“ segir Páll Óskar.

„Leikhópurinn fær frásagnir af börnum, sem hafa komið hingað á sýningar til okkar, hafa átt erfitt með að sýna tilfinningar sínar og ræða málin en hafa opnast. Mætt í skólann bein í baki og sýnt á sér allt aðrar hliðar! Það er eins og sýningin hafi leyst áður óþekktar og jafnvel bældar tilfinningar úr læðingi. Ef það er uppskeran þá er ég alveg tilbúinn til að vera Frank-N-Furter fimm sinnum í viku,“ segir hann að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×