Erlent

Þjóðarleiðtogar heims ræðast víða við í dag vegna Sýrlands

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fundaði um helgina og hittist aftur í dag og ræðir drög að ályktun.
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fundaði um helgina og hittist aftur í dag og ræðir drög að ályktun. Vísir/epa
Fundum verður fram haldið í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í dag til að ræða tillögu Bandaríkjamanna, Breta og Frakka að ályktun um aðgerðir vegna Sýrlands og auka með því þrýsting á Rússa um að láta af stuðningi við Sýrlandsstjórn.

Samkvæmt tillögunni yrði Alþjóðlega efnavopnastofnunin (OPCW) að skila skýrslu innan 30 daga um efnavopnabirgðir Sýrlandsstjórnar, sjúkraflutningar og öruggir flutningar hjálpargagna til Sýrlands yrðu tryggðir og gerð krafa um að stjórn Bashars Al-Assad gangi til friðarviðræðna í góðri trú og án allra skilyrða.

Utanríkisráðherrar ríkja Evrópusambandsins hittast einnig í Brussel í dag og gert er ráð fyrir að þeir styðji ályktunardrög ríkjanna þriggja.

Sjá einnig: „Kalda stríðið er einfaldlega komið aftur“

Guðlaugur Þór Þórðarson og aðrir utanríkisráðherrar Norðurlandanna hittast í Stokkhólmi í dag, en þar er Guðlaugur Þór staddur til að taka þátt í jafnréttisþingi.

Þótt flestir þjóðarleiðtogar Vesturlanda hafi ýmist lýst stuðningi eða fullum skilningi á loftárásum Bandaríkjamanna, Frakka og Breta í Sýrlandi eru mjög skiptar skoðanir um þær víða um heim og hafa almennir borgarar bæði í Bandaríkjunum og víðar mótmælt á götum úti um helgina.

Þingmenn í árásarríkjunum hafa einnig gagnrýnt að ekki hafi verið haft samráð við þjóðþing ríkjanna um árásirnar. Þá skiptast sérfræðingar í þjóðarétti á skoðunum um lögmæti árásanna.

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, hefur tekið einna dýpst í árinni.Vísir/AFP
Af yfirlýsingum leiðtoga ríkjanna þriggja að dæma virðast árásirnar fyrst og fremst hafa haft pólitísk markmið; það er, að halda uppi trúverðugleika ríkjanna, ekki síst gagnvart leiðtogum Sýrlands og Rússlands, enda hafi línan verið löngu dregin í sandinn og Assad farið yfir þá línu með efnavopnaárásum á eigin borgara, eins og Macron Frakklandsforseti lýsti í yfirlýsingu í kjölfar árásanna.

Um einangraða aðgerð var að ræða en ekki lið í röð aðgerða. Þannig var ekki um að ræða aðgerð til að rjúfa samgönguleiðir eða samskiptaleiðir eða aðra innviði. Val á skotmörkunum þremur virðist þannig ekki haft þann tilgang sérstaklega að hindra frekari efnavopnaárásir heldur hafi verið valin skotmörk með tengingu við efnavopnaframleiðslu.

Breska stjórnin hefur þó, ein ríkisstjórnanna þriggja, vísað sérstaklega til mannúðarsjónarmiða í yfirlýsingu um lögmæti árásanna og vísar með því til þeirra viðhorfa að heimilt sé í undantekningartilvikum að beita hervaldi í öðru ríki af knýjandi mannúðarástæðum.

Þrátt fyrir að stofnsamþykktir Sameinuðu þjóðanna heimili eingöngu hernaðaríhlutanir þvert á landamæri ef um sjálfsvörn er að ræða, hafa verið færð rök fyrir því að beita megi hervaldi af knýjandi mannúðarástæðum. 

Hernaðaríhlutun hefur nokkuð oft átt sér stað með þessum rökum, meðal annars í Persaflóastríðinu, í stríðinu á Balkanskaga, í Síerra Leóne og Líberíu svo dæmi séu tekin.

Að mati Marcs Weller, prófessors í þjóðarétti við Camebridge-háskóla, myndu hvers kyns hernaðaraðgerðir innan landamæra annarra fullvalda ríkja af öðrum ástæðum alltaf þarfnast fyrirfram samþykkis Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna til að geta talist samræmast samþykktum SÞ, þar á meðal aðgerðir til að knýja önnur ríki til að virða alþjóðalög.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×