Erlent

Orðljóti liðþjálfinn látinn

Stefán Ó. Jónsson skrifar
R. Lee Ermey var 77 ára gamall.
R. Lee Ermey var 77 ára gamall. Vísir/Getty
Leikarinn R. Lee Ermey, sem þekktastur er fyrir túlkun sína á harðskeytta liðþjálfanum „Gunny“ Hartman í stríðsmyndinni Full Metal Jacket, er látinn. Hann var 74 ára gamall.

Áður en Ermey fór út í leiklist hafði hann verið landgönguliði í bandaríska sjóhernum. Það átti eftir að gagnast honum því fyrir vikið nældi hann sér í mörg hlutverk sem hermaður á löngum leiklistarferli.

Umboðamaður Ermey skrifaði á Twitter-síðu leikarans að hann hafi látist eftir baráttu við lungnabólgu. „Hans verður sárt saknað,“ stendur í færslunni. „Semper fi, Gunny. Góða ferð.“

 

Ermey fæddist í Kansas árið 1944 og starfaði í hernum á sjöunda áratugnum og fram á þann áttunda. Var hann meðal annars sendur til Japans og Víetnam þar sem hann gegndi stöðu liðþjálfa.

Það var svo árið 1987 sem hann birtist í hlutverki Hartman í stórmynd Stanley Kubrick, Full Metal Jacket, en frammistaða hans skilaði honum Golden Globe-tilnefningu. Sagan segir að Kubrick hafi ráðið Ermey sem ráðgjafa við gerð myndarinnar en heillast svo af frammistöðu hans að leikstjórinn hafi hreinlega ákveðið að láta hann fá hlutverkið.

Leikarinn átti síðar eftir að talsetja fjölda teiknimynda, til að mynda ljáði hann leikfangahermönnunum í Leikfangasögu rödd sína, ásamt því að birtast í tugum her- og stríðsmynda.

Hér að neðan má sjá atriðið sem skráði nafn Ermey á spjöld kvikmyndasögunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×