Innlent

Akurnesingar koma Söngkeppni framhaldsskólanna til bjargar

Ingibjörg Sara Guðmundsdóttir skrifar
Skagamaðurinn Ísólfur Haraldsson og félagar hans í Vinum hallarinnar sjá um keppnina í ár
Skagamaðurinn Ísólfur Haraldsson og félagar hans í Vinum hallarinnar sjá um keppnina í ár Vísir/GVA
Söngkeppni framhaldsskólanna verður haldin á Akranesi þann 28. apríl. Vinir hallarinnar hafa tekið að sér framkvæmd keppninnar. Skagafréttir greindu fyrst frá. Stutt er síðan keppninni var aflýst eins og fjallað var um á Vísi. 

Ísólfur Haraldsson, framkvæmda – og viðburðarstjóri hjá Vinum hallarinnar, segist í samtali við Vísi hafa fengið símtal frá formanni Sambands Íslenskra Framhaldsskóla (SÍF), Davíð Snæ Jónssyni, á miðvikudag í síðustu viku. „Ég hugsaði þetta hratt í símanum og sagðist vera tilbúinn að gera þetta ef keppnin yrði haldin á Akranesi.“

Ísólfur segir hjólin hafa verið farin að snúast strax. „Það er gríðarlegur velvilji fyrir þessu og einhvern veginn eru allir boðnir og búnir að sjá til þess að þetta verði að veruleika.“

Hann segir hraðar vendingar í málinu ekki hafa áhrif á keppendur og munu 24 skólar taka þátt í keppninni í ár. Skólarnir og allir tengdir keppninni séu á því að hún eigi að vera haldin. „Það er baráttuandi innan skólanna um að keppnin verði haldin og þetta verður stórglæsilegt.“

Keppnin á sér langa sögu en hún var fyrst haldin árið 1990. Margir þekktir listamenn hafa stigið sín fyrstu skref í keppninni. Þar má helst nefna Pál Óskar, Emiliönu Torrini, Birgittu Haukdal, Sverri Bergmann, Dag Sigurðsson og Glowie. 

Davíð Snær Jónsson er formaður Sambands Íslenskra FramhaldsskólaAðsend mynd

Mögulegt framtíðarheimili keppninnar

Ísólfur og félagar í Vinum hallarinnar hafa unnið að viðburðum síðan árið 2001 og sjá um marga viðburði á hverju ári. Þar má helst nefna Lopapeysuna á Írskum dögum og Októberfest hjá Stúdentaráði Háskóla Íslands. 

Hann segir það hjálpa að hafa reynsluna og tengslanetið sem þeir séu með. „Við eigum líka tæki og tól til að nota í keppnina og það hjálpar fjárhagslega við að geta tekið svona ákvarðanir.“ 

Ísólfur segir þau líka vera að horfa á þetta til framtíðar. „Ef vel gengur að halda keppnina hér á Akranesi þá erum við að horfa á þetta verkefni til framtíðar.“ 

Hann segir þau hafa fundið fyrir miklum velvilja í bæjarfélaginu, það hafi þurft að gera breytingar á íþróttastarfi barna þar sem keppnin verður haldin í Íþróttahúsinu við Vesturgötu, en þegar maður búi í samfélagi sem þessu þá séu engin vandamál. 

„Ég efast um að fólk vilji fara eitthvað annað þegar það er búið að vera með þetta einu sinni hér á Akranesi,“ segir Ísólfur glaður í bragði. Það sé í sjálfu sér eitthvað sem þarf að skoða eftir keppni. 

Ísólfur og félagar í Vinum hallarinnar hafa lengi komið að því að skipuleggja stóra viðburði. Hér er Ísólfur á mynd með Birgittu Haukdal, þátttakanda í Söngkeppni framhaldsskólanna árið 1998.Aðsend mynd

Keppninni sjónvarpað

Aðspurður að því hvort að keppninni verði sjónvarpað svarar hann játandi. „Þessu verður sjónvarpað á einhvern hátt, vonandi á einhverri sjónvarpsstöð.“ 

„Það er bara að gerast í dag, það er í mörg horn að líta þar,“ segir Ísólfur og bætir við að allir séu boðnir að koma að sjónvarpsútsendingunni þó að þetta sé skammur fyrirvari. 

Hann segist aðeins trúa á lausnir, ekki neitt annað.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×