Umfjöllun og viðtöl: Haukar - Valur 29-19 | Meisturunum sópað í sumarfrí

Einar Sigurvinsson skrifar
Björgvin Páll Gústavsson.
Björgvin Páll Gústavsson. vísir/anton
Haukar tryggðu sér sæti í undanúrslitum Íslandsmóts karla í handbolta þegar liðið sigraði Val með tíu marka mun. Leikurinn fór fram í Schenker-höllinni í Hafnarfirði og voru lokatölur 29-19. Ríkjandi Íslandsmeistarar Vals eru því komnir í sumarfrí en einvígið milli liðanna endaði 2-0 fyrir Haukum.

Það var ljóst frá upphafi að upplegg beggja liða var góður varnarleikur. Það gekk vel og var lítið skorað í leiknum framan af. Það var það ekki fyrr en á 8. mínútu leiksins sem Björgvin Páll Gústavsson fékk á sig sitt fyrsta mark og staðan orðin 2-1 fyrir Hauka.

Þegar leið á fyrri hálfleikinn fóru Haukar að finna leiðir í gegnum vörn Valsmanna. Sóknarleikur Vals hefur hins vegar oft verið betri en hann var í dag en þeir skoruðu aðeins sex mörk í fyrri hálfleik.

Haukar fóru inn í hálfleikinn með sex marka forystu, 12-6, og héldu þeir uppteknum hætti í síðari hálfleik. Á 40. mínútu fékk Alexander Örn Júlíusson, einn besti varnamaður Valsmanna í vetur, dæmdar á sig tvær mínútur í þriðja sinn í leiknum og fékk hann þar af leiðandi rautt spjald. Haukar skoruðu í næstu sókn á eftir og komust níu mörkum yfir, 17-8, og leikurinn í þeirra höndum.

Frá þessum tímapunkti var sigur Hauka í raun aldrei í hættu. Þeir héldu áfram að spila öfluga vörn auk þess að spila frábæran sóknarleik. Lokatölur 29-19 fyrir Hauka sem mæta deildarmeisturum ÍBV í næstu umferð.

Af hverju unnu Haukar leikinn?

Vörn og markvarsla var lykillinn að sigri Hauka. Þeir gáfu fá færi á sér en þegar það Valsmenn sluppu í gegn var Björgvin Páll að reynast þeim erfiður. Á 25. mínútu leiksins höfðu Valsmenn aðeins skorað þrjú mörk mörk og var þá Björgvin með yfir 75 prósenta markvörslu.

Auk þess að spila frábæran varnarleik fóru Haukar að finna taktinn í sókninni í síðari hálfleik. Það að alveg ljóst að framundan er hörkubarátta milli tveggja gífurlega sterkra liða þegar Haukar mæta deildarmeisturum ÍBV í undanúrslitum.

Hverjir stóðu upp úr?

Björgvin Páll Gústavsson átti stórleik og endaði leikinn með 17 varða bolta og 55 prósenta markvörslu. Þar af varði hann tvö víti og fjölmörg dauðafæri. Heimir Óli Heimisson og Daníel Þór Ingason voru frábærir í vörn Hauka auk þess að vera drjúgir fram á við. Heimir Óli skoraði fimm mörk og Daníel Þór skoraði sex.

Atkvæðamestur í liði Hauka var Adam Haukur Baumruk með sjö mörk.

Sveinn Aron Sveinsson og Anton Rúnarsson voru markahæstir í liði Vals með fimm mörk hvor.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur Valsmanna varð þeim að falli í dag. Þeim gekk illa að skapa sér færi og þau færi sem sköpuðust voru illa nýtt. Skotnýting Valsmanna var ekki nema 40 prósent á meðan Haukar skoruðu úr 74 prósentum skota sinna.

Markverðir Vals hafa einnig átt betri daga en þeir vöru samtals átta skot í leiknum.

Hvað gerist næst?

Íslandsmeistararnir í Val eru komnir í sumarfrí en næsta verkefni Hauka er undanúrslitaviðureign við ÍBV. Fyrstu leikir undanúrslitanna fara fram um næstu helgi.

Gunnar: Við ætluðum ekki að fara í einhvern oddaleik
Gunnar Magnússon.vísir/anton
„Hvað get ég sagt við, vorum bara stórkostlegir í kvöld. Ég er hrikalega stoltur af strákunum fyrir það hvernig þeir komu inn í þetta. Við töpuðum í vítakastkeppni í 8-liða úrslitum í fyrra og ég er ekki ennþá búinn að jafna mig á því. Þannig að við ætluðum ekki að fara í einhvern oddaleik þar sem allt gæti gerst og fá einhverja gamla drauga yfir okkur, við ætluðum að mæta hingað og klára þetta,“ sagði Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka, í leikslok.

Haukar voru að spila frábæran varnarleik í dag en Gunnar var sérstaklega ánægður með sóknarleik sinna manna.

„Mér fannst við leysa sóknarleikinn. Ég var alveg rólegur með varnarleikinn, mér fannst þeir hafa góð tök þar. Ég var ánægður með það hvernig við spiluðum sóknarleikinn taktískt og það gekk vel upp hjá okkur. Það var kannski lykillinn hafi að þessu öllu saman.“

Næsti leikur Hauka er gegn deildarmeisturum ÍBV í undanúrslitunum og leggst verkefnið vel í Gunnar eftir leikinn í kvöld

„Við vorum að leggja mjög sterkt lið Vals af velli, frábært lið og við spiluðum þetta vel. Auðvitað eru ÍBV deildar- og bikarmeistarar með frábært lið, það verður bara hrikalega gaman að glíma við þá. Þetta eru uppáhaldsstaðirnir mínir. Mér líður hvergi betur en á Ásvöllum eða í Vestmannaeyjum. Nú fæ ég að flakka á milli, þetta verður bara geggjað,“ sagði Gunnar að lokum.

Snorri Steinn: Ekki nógu góður leikur
Snorri Steinn var að vonum vonsvikinn í leikslok.
„Bara vonbrigði og ekkert annað,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfi Vals, í leikslok.

Hann segir að það liggja í augum uppi að sóknarleikurinn hafi verið Valsmönnum að falli í kvöld, en Björgvin Páll Gústavsson reyndist þeim erfiður.

„Við þurfum ekkert að vera miklir sérfræðingar til þess að átta okkur á því. Við vorum í vandræðum sóknarlega og í gríðarlegum vandræðum með Bjögga allan leikinn. Ég var samt ánægður með sóknarleikinn framan af. Við vorum að skapa okkur þokkaleg færi.“

„Við hefðum bara þurft á því að halda að brjóta ísinn gegn Bjögga. Hann dregur úr okkur tennurnar og við missum móðinn. Þó svo að það sem við vorum að gera í byrjun hafi ekkert verið að virka illa vorum skotin ekki að fara inn. Svo leiðir bara eitt af öðru og í heildina var þetta ekki nógu góður leikur,“ sagði Snorri Steinn að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira