Innlent

Kjaradeila ljósmæðra og ríkisins áfram í hnút eftir fund dagsins

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Foreldrar og börn mættu fyrir utan húsnæði ríkissáttasemjara til stuðnings ljósmæðrum í dag.
Foreldrar og börn mættu fyrir utan húsnæði ríkissáttasemjara til stuðnings ljósmæðrum í dag. vísir/vilhelm
Fundi samninganefndar Ljósmæðrafélags Íslands og samninganefndar ríkisins sem hófst klukkan 13 í dag var slitið á þriðja tímanum. Ekkert nýtt kom fram á fundinum, að sögn formanns Ljósmæðrafélagsins, en honum lauk án niðurstöðu.

Áslaug Valsdóttir, formaður Ljósmæðrafélags Íslands, á fundi samninganefndanna um klukkan 13 í dag.vísir/vilhelm
„Við ræddum bara málin og það kom ekkert nýtt fram af hálfu samninganefndar ríkisins. Þetta er áfram í hnút,“ segir Áslaug Valsdóttir, formaður Ljósmæðrafélags Íslands, í samtali við Vísi.

Aðspurð segir hún ljósmæður ekki stefna á að endurskoða kröfur sínar að neinu ráði.

„Við erum náttúrulega alltaf að spá í hvað við getum gert, hvort það sé eitthvað hægt að gera. Við leggjumst bara yfir það en ég reikna ekki með að það verði miklar breytingar af okkar hálfu,“ segir Áslaug.

„Okkur finnst eðlilegt útspil að samninganefndin komi með eitthvað til þess að vinna með.“

Áslaug sagði í samtali við Vísi fyrir fundinn í dag að engar breytingar hafi verið gerðar á kröfum ljósmæðra frá síðasta fundi, sem haldinn var þann 3. apríl, og að ekki yrði dregið úr þeim á fundi dagsins.

Næsti fundur samninganefnda í kjaradeilu ljósmæðra og ríkisins verður haldinn að tíu dögum liðnum, fimmtudaginn 26. apríl.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×