Fótbolti

Vítaspyrna dæmd í hálfleik og mótmælt með klósettpappír í Þýskalandi

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Öryggisverðir og vallarstarfsmenn þurftu að hreinsa klósettpappír í hálfleik
Öryggisverðir og vallarstarfsmenn þurftu að hreinsa klósettpappír í hálfleik vísir/epa

Þýska liðið Mainz fékk dæmda vítaspyrnu í leik sínum við Freiburg í Bundesligunni í kvöld þrátt fyrir að allir leikmenn beggja liða væru farnir til búningsherbergja.

Staðan var markalaus þegar leikmenn gengu til búningsherbergja í hálfleik. Dómari leiksins, Guido Winkmann, kallaði hins vegar á leikmennina til baka þar sem hann hafði dæmt vítaspyrnu á Freiburg eftir að ráðfæra sig við myndbandsdómara.

Pablo de Blasis skoraði úr spyrnunni og kom gestgjöfunum í Mainz yfir.

Þá þurfti að seinka seinni hálfleiknum þar sem stuðningsmenn köstuðu klósettpappír inn á völlinn í mótmælaskyni. Mótmælin snéru þó ekki að vítaspyrnudómnum heldur því að leikur í Bundesligunni færi fram á mánudagskvöldi.

Mainz vann leikinn 2-0, en de Blasis bætti við öðru marki sínu á 79. mínútu. Með sigrinum fór Mainz úr fallsæti og sendi Freiburg í sinn stað, liðin eru jöfn að stigum en Mainz með betri markatölu.
Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.