Erlent

Umfjöllun um Harvey Weinstein hlaut Pulitzer-verðlaunin

Birgir Olgeirsson skrifar
Bandaríski kvikmyndaframleiðandinn Harvey Weinstein.
Bandaríski kvikmyndaframleiðandinn Harvey Weinstein. Vísir/AFP
Bandarísku fjölmiðlarnir The New York Times og New Yorker Magazine hlutu í dag Pulitzer-verðlaun fyrir umfjöllun sína um ásakanir á hendur kvikmyndaframleiðandanum Harvey Weinstein um kynferðislega áreitni og kynferðislegt ofbeldi.

Umfjöllunin leiddi til þess að Weinstein var útskúfaður úr kvikmyndabransanum en fjöldi kvenna steig fram og lýsti ýmist kynferðislegu áreiti eða ofbeldi Weinstein í þeirra garð.

Þessi umfjöllun leiddi til MeToo-byltingarinnar sem teygði anga sína um allan heim og leiddi til þess að fjöldi kvenna úr mörgum stéttum steig fram með reynslusögur af áreiti og ofbeldi karla í þeirra garð. 

Pulitzer-verðlaunin eru þau virtustu þegar kemur að blaðamennsku í Bandaríkjunum.

Söguleg verðlaun fyrir rapp

Pulitzer-nefndin veitir einnig verðlaun þegar kemur að bókmenntum og tónlist. Þetta árið var bandaríski rapparinn Kendrick Lamar verðlaunaður fyrir plötu sína DAMN.

Er Kendrick Lamar sá fyrsti sem ekki tilheyrir hópi klassískra- eða djasstónlistarmanna til að hljóta verðlaunin.

Bandaríska dagblaðið The Washington Post hlaut verðlaun fyrir rannsóknarblaðamennsku vegna umfjöllunar sinnar um ásakanir á hendur frambjóðandans Roy Moore frá Alabama.



Roy
 Moore er í Repúblikanaflokknum en hann neitaði staðfastlega þessum ásökunum um kynferðislegt misferli. Ásakanirnar höfðu mikið um það að segja að frambjóðandi Demókrata, Doug Jones, hafði betur gegn Moore í kosningum til Bandaríkjaþings í Alabama-ríki.



The
 New York Times deildi einnig verðlaunum með The Washington Post fyrir umfjöllun um meint afskipti Rússa á forsetakosningunum í Bandaríkjunum árið 2016. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×