Sport

„Skilja afstöðu“ leikmanns sem sagði að hommar fari til helvítis

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Israel Folau er ekki hrifinn af samkynhneigð.
Israel Folau er ekki hrifinn af samkynhneigð. vísir/getty
Israel Folau, leikmaður ástralska landsliðsins í ruðningi, fær enga skömm í hattinn fyrir að segja á samfélagsmiðlum að hommar fara til helvítis. Ástralska ruðningssambandið segist skilja afstöðu hans. BBC greinir frá.

Fyrr í mánuðinum svaraði Folau, sem er 29 ára gamall, Instagram-færslu þar sem spurt var hver áætlun Guðs væri í fyrir samkynhneigða. Ástralinn svaraði að helvíti væri það sem biði þeirra.

Folau reyndi að útskýra orð sín í pistli á vefsíðunni Players Voice þar sem hann sagðist sjálfur margsinnis hafa syndgað og hann ætlaði ekki að særa neinn. Hann bauðst til þess að hætta í landsliðinu ef ástralska sambandið gæti ekki sætt sig við orð sín.

Raelene Castle, framkvæmdastjóri ástralska ruðningssambandsins, segir starfsmenn sambandsins skilja afstöðu hans og því verður honum ekki refsað. Folau sé búin að setja orð sín í samhengi og það virða verði trú hans.

„Með sínum eigin orðum er Israel búinn að segja að hann ætlaði sér ekki að særa neinn eða koma óorði á íþróttina. Við skiljum afstöðu Israels,“ segir Raelene Castle.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Folau kemst í fréttirnar fyrir afstöðu sína í garð samkynhneigðra því á síðasta ári skrifaði hann færslu á Twitter þar sem hann fordæmdi hjónaband samkynhneigðra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×