Innlent

Annar strokufangi var tekinn eftir 9 daga leit

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Mikael Már Pálsson hafðist við á Vernd.
Mikael Már Pálsson hafðist við á Vernd. Vísir/GVA
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók í gær Mikael Má Pálsson sem leitað hefur verið að síðan 9. apríl síðastliðinn eftir að hann skilaði sér ekki á tilteknum tíma á áfangaheimilið Vernd þar sem hann var að ljúka afplánun refsidóms. Ekki var lýst eftir Mikael í fjölmiðlum en hann sat í fangelsi fyrir fíkniefnabrot, vopnalagabrot og hlutdeild í ráni í skartgripaverslun.

Sakaferill Mikaels spannar rúm 20 ár og hann á að baki hátt á annan tug refsidóma, í flestum tilvikum fyrir fíkniefnabrot, þjófnaði og umferðarlagabrot. Þyngsta dóminn hlaut hann árið 2006 þegar var hann dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir innflutning á tæplega hálfu kílói af kókaíni og tæpum fjórum kílóum af amfetamíni.

Mikael hefur ítrekað brotið skilyrði reynslulausnar og þá verið gert að afplána eftirstöðvar dóma sinna. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem vistmaður á Vernd strýkur án þess að lýst sé eftir honum í fjölmiðlum. Árið 2007 hafði dæmds morðingja verið saknað í fimm daga þegar fjölmiðlar greindu frá því að lögregla leitaði hans, en hann var þá að ljúka afplánun 16 ára dóms fyrir morð sem hann framdi í Heiðmörk ásamt bróður sínum.

„Þegar fólk skilar sér ekki á Vernd, þá er litið á það sem strok úr afplánun og lýst eftir viðkomandi eða gefin út handtökubeiðni,“ segir Páll Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar.

„Þetta er ekki hættulegur maður og við sáum ekki ástæðu til þess,“ segir Páll aðspurður um ástæður þess að ekki var lýst eftir manninum í fjölmiðlum og áréttar að hann hafi ekki strokið úr fangelsi heldur af áfangaheimili.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×