Enski boltinn

Stjóri Gylfa á ekki von á góðu í þessari könnun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sam Allardyce og Gylfi Þór Sigurðsson.
Sam Allardyce og Gylfi Þór Sigurðsson. Vísir/Samsett/Getty
Sam Allardyce, knattspyrnustjóri Gylfa Þórs Sigurðssonar hjá Everton, hefur ekki náð að vinna hug og hjörtu stuðningsmanna félagsins síðan að hann tók við af Ronald Koeman í nóvember.

Það eru heldur ekki góðar fréttir fyrir stóra Sam að Everton hafi ákveðið að senda út könnun með stuðningsmanna sinna þar sem þeir eru beðnir að meta frammistöðu Sam Allardyce frá 1 til 10.

Þessi liður er hluti af stærri könnun sem rannsakar tengsl stuðningsmanna Everton við félagið sitt. BBC segir frá.

Sam Allardyce er orðinn 63 ára gamall og þykir afar gamaldags í nálgun sinni á leikinn. Liðið spilar varnarsinnaðan fótbolta þar sem fátt gleður stuðningsmennina í sóknarleiknum.  





Það hjálpaði stóra Sam ekki að missa íslenska landsliðsmanninn í meiðsli þegar Gylfi var að komast á strik.

Everton var á leiðinni í fallbaráttu undir stjórn hollenska stjórans en Sam Allardyce hefur náð í 27 stig út úr 20 leikjum og komið liðinu upp í níunda sæti.

Stuðningsmenn hraunuðu yfir Allardyce á samfélagsmiðlum eftir 1-1 jafntefli á móti Swansea um síðustu helgi og sama gerðist eftir tap á móti Burnley í byrjun mars.

Það er flest sem bendir til þess að eigendur Everton séu að leita að nýjum knattspyrnustjóra og þar sem Sam Allardyce á ekki von á góðu í þessari könnun þá er hún nær örugglega ekki að fara bjarga starfi hans á Goodison Park.

Marco Silva, fyrrum stjóri Watford, og Paulo Fonseca hjá Shakhtar Donetsk þykja líklegustu kostirnar í vangaveltum ensku miðlanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×