Erlent

Brjáluð eftir að hafa verið líkt við Trump

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Jacinda Ardern hefur ekki hátt álit á Donald Trump.
Jacinda Ardern hefur ekki hátt álit á Donald Trump. Vísir/Epa
Forsætisráðherra Nýja-Sjálands segist vera „æf“ og „mjög reið“ eftir að henni var líkt við forseta Bandaríkjanna, Donald Trump.

Wall Street Journal birti í september í fyrra grein undir yfirskriftinni „Heilsið upp á Justin Trudeau Nýja-Sjálands - nema hvað að hún er meira eins og Donald Trump þegar kemur að innflytjendamálum.“

Í samtali við bandarísku sjónvarpsstöðina ABC sagði Jacinda Ardern að þessi samlíking gæti ekki verið fjær sannleikanum. „Þetta reitti mig til reiði,“ sagði Ardern, tvisvar í röð til að undirstrika pirring sinn.

„Við erum flokkur sem barðist fyrir því að taka við tvöfalt fleiri flóttamönnum. Við erum þjóð sem byggir á innflytjendum. Ég er sjálf af þriðju kynslóð innflytjenda,“ er haft eftir Ardern á vef Guardian.

„Það var gefið í skyn að Nýja-Sjáland væri ekki opið og gestrisið land - það var gefið í skyn að ég stýrði einhvern veginn í andstöðu við það - það gerði mig mjög reiða.“

Engu að síður hefur ríkisstjórn Ardern heitið því að taka við 20 til 30 þúsund færri innflytjendum á næstu þremur árum. Þess í stað verði áherslan lögð á að lokka alþjóðlega skiptinema til landsins með það fyrir augum að þeir verði áfram á Nýja-Sjálandi eftir að námi þeirra líkur.

Þá ætlar ríkisstjórnin einnig að herða skilyrðin sem fyrirtæki verða að uppfylla, vilji þau ráða til sín starfsfólk frá útlöndum. Það á að virka sem hvatning fyrir fyrirtæki til að ráða þess í stað Nýsjálendinga.

Nýja-Sjáland hefur tekið við slíkum fjölda innflytjenda á síðustu árum að það hefur, að sögn flokks Ardern, bitnað á vegakerfinu, húsnæðismarkaðnum og öðrum innviðum þar í landi. Því þætti flokknum gott að geta hægt aðeins á þeirri þróun svo að landið geti náð „andanum.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×