Enski boltinn

Wright: Tottenham verður að eyða peningum til að ná Man. City

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Tottenham þarf að eyða peningum.
Tottenham þarf að eyða peningum. Vísir/Getty
Ian Wright, fyrrverandi framherji Arsenal, segir að Tottenham verði hreinlega að styrkja leikmannahóp sinn í sumar ef það ætlar að eiga einhvern mögulega að ná Manchester City á næstu leiktíð.

City er nú þegar orðið enskur meistari þegar enn eru fjórar umferðir eftir en Tottenham varð af tveimur stigum í gærkvöldi þegar að liðið gerði jafntefli við nýliða Brighton.

Tottenham er nú 19 stigum á eftir Manchester City og er búið að hleypa Chelsea aftur inn í baráttuna um Meistaradeildarsæti þegar að fjórar umferðir eru eftir.

„Tottenham þarf að eyða,“ sagði Wright hiklaust aðspurður hvað Pochettino þarf að gera í sumar fyrir næstu leiktíð í ensku úrvalsdeildinni.

„Við sáum samt Everton eyða miklu þannig að það þarf líka að eyða peningum í réttu mennina. Það erfiða fyrir Tottenham verður að finna réttu leikmennina.“

„Tottenham verður að finna leikmann sem er tilbúinn að koma til Englands og svo verður það að vinna baráttuna um hann á móti Chelsea, City og Man. Utd. Eftir það verður svo leikmaðurinn að byrja að spila vel um leið og hann mætir. Þetta er eitthvað sem öll liðin fyrir aftan Manchester City verða að gera núna ef að þau ætla að ná meisturunum,“ sagði Ian Wright.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×