Enski boltinn

Las slúðursögu um að hann væri á leið til Liverpool og skellti í eitt „like“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jorginho fagnar með liðsfélögum sínum.
Jorginho fagnar með liðsfélögum sínum. Vísir/Getty
Orðrómurinn um að miðjumaður ítalska félagsins Napoli sé á leið til Liverpool er nú ennþá hærri eftir að leikmaðurinn sjálfur líkaði við slúðursögu á samfélagsmiðli.

Jorginho er 26 ára gamall og hefur verið orðaður við Liverpool. Hann hefur fengið mikið lof fyrir frammistöðu sína á þessu tímabili þar sem Napoli er að berjast um ítalska meistaratitilinn.

Jorginho spilar sem aftuliggjandi miðjumaður en þykir mjög góður sendingamaður. Liverpool þarf að styrkja miðjuna sína og þessi strákur þykir passa vel inn í það hlutverk.

Hann sjálfur virðist einnig vera mjög jákvæður fyrir skiptum frá Napoli til Liverpool.

Jorginho skellti nefnilega í eitt „like“ við frétt á Instagram um að hann væri á leiðinni á Anfield.

Liverpool twitter-síðan Anything Liverpool vakti athygli á þessu sem kallaði fram bros hjá mörgum stuðningsmönnum félagsins.   





Manchester liðin United og City hafa einnig verið orðuð við Jorginho en Liverpool virðist hafa tekið forystu í kapphlaupinu.

Knattspyrnustjórinn Jürgen Klopp sannfærði menn eins og Mohamed Salah, Virgil van Dijk og Naby Keita um að koma á Anfeld og hver veit nema að þeir Keita og Jorginho verði saman á miðju Liverpool-liðsins á næstu leiktíð.

Jorginho hefur spilað með Napoli frá árinu 2014 en áður spilaði hann með Verona. Hann er fæddur í Brasilíu en flutti til Ítalíu sautján ára gamall og hefur nú spilað fimm landsleiki fyrir Ítalíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×