Chelsea endaði sigurgöngu Burnley │ Jói Berg með stoðsendingu

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Jóhann Berg í fyrri leiknum gegn Chelsea á Brúnni
Jóhann Berg í fyrri leiknum gegn Chelsea á Brúnni vísir/afp
Chelsea náði í mikilvæg stig í baráttunni um sæti í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili með sigri á Burnley á Turf Moor í kvöld.

Gestirnir frá Lundúnum komust yfir snemma leiks með sjálfsmarki Kevin Long. Victor Moses átti fyrirgjöf inn í teiginn sem Nick Pope nær ekki að slá frá, boltinn berst til Long sem reynir að hreinsa frá en tekst ekki betur til en að boltinn endar í netinu.

Englandsmeistararnir voru mun meira með boltann en heimamenn í Burnley náðu að skapa sér fín færi í hálfleiknum án þess þó að jafna leikinn.

Jöfnunarmarkið kom á 64. mínútu þegar Jóhann Berg Guðmundsson átti þrumuskot í átt að marki Chelsea. Boltinn fór í fætur Ashley Barnes og þaðan í netið og Barnes fær markið skráð á sig. Jóhann Berg fær þó stoðsendinguna.

Burnley fékk þó ekki að fagna lengi, Victor Moses kom Chelsea aftur yfir aðeins nokkrum mínútum seinna. Boltinn féll til hans í teignum og Moses kláraði í netið á nærstöngina.

Fleiri urðu mörkin ekki og Chelsea batt enda á fimm leikja sigurgöngu Burnley með einni bestu frammistöðu sem liðið hefur sýnt á þessu ári.

Leicester og Southampton skildu jöfn í markalausum leik á King Power vellinum í Leicester. Stigið er Southampton mikilvægt í fallbaráttunni en stuðningsmenn liðsins gráta líklegast að stigin hafi ekki verið þrjú. Southampton er í fallsæti, fjórum stigum frá Swansea í 17. sætinu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira