Körfubolti

Valur þarf stórleik frá aukaleikurunum

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Systurnar Helena og Guðbjörg Sverrisdætur mætast
Systurnar Helena og Guðbjörg Sverrisdætur mætast
Deildarmeistarar Hauka taka á móti Val í fyrsta leik úrslita í Domino’s-deild kvenna á heimavelli í kvöld en vinna þarf þrjá leiki í úrslitaeinvíginu til að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn.

Haukakonur geta unnið meistaratitilinn í fjórða sinn í sögu félagsins, tveimur árum eftir að hafa horft á eftir titlinum til Snæfells eftir oddaleik en Valskonur eru að leika til úrslita í fyrsta sinn í sögu félagsins. Tvisvar á undanförnum fimm árum hafa Valskonur fallið út í undanúrslitaeinvíginu eftir oddaleik en í ár komust þær yfir þröskuldinn og eru komnar í úrslitin.

Fréttablaðið heyrði í Inga Þór Steinþórssyni, þjálfara Snæfells, til að rýna í einvígið en þetta verður í fyrsta sinn í fimm ár sem Snæfell er ekki í úrslitaeinvíginu.

„Þetta verður barátta tveggja vel mannaðra liða, það eru mörg lítil einvígi inni á vellinum sem verður gaman að fylgjast með. Bæði liðin tóku smá dýfu í vetur en þetta eru tvö bestu liðin,“ segir Ingi. Í einvíginu mætast systurnar Helena og Guðbjörg Sverrisdætur.

„Það er ansi magnað að Guðbjörg hefur yfirleitt ekki átt sína bestu daga gegn Helenu en Helena á yfirleitt frábæra leiki þegar þær systurnar mætast. Guðbjörg er nú orðin það reynd að hún lætur þetta ekki hafa áhrif á sig núna.“

Þetta verður fimmti leikur liðanna í vetur en Haukaliðið hefur unnið þrjá af fjórum hingað til.

„Það mun reyna á Haukaliðið í þessu einvígi, þær munu sakna Dýrfinnu [Arnardóttur] á báðum endum vallarins,“ segir Ingi en Helena verður í lykilhlutverki.

„Helena hefur verið að spila frábærlega, sérstaklega eftir að þau fengu Whitney Frazier inn. Hún hefur bætt Helenu því þær passa betur saman, Cherise Daniels var of lík henni og þær voru oft í raun að keppast um sömu hlutina,“ segir Ingi sem segir ekki auðvelt að stoppa Helenu.

„Það er ekkert hægt að stoppa Helenu, ef þú tekur af henni skotið fer hún að dreifa boltanum því hún sér völlinn afar vel. Hún er frábær inni á vellinum og langbesti íslenski leikmaðurinn.“

Ingi segir að Valsliðið þurfi að fá framlag frá öllu liðinu til þess að skila sigrinum.

„Valsliðið þarf að fá stórleiki frá fleiri stelpum, eins og þær hafa verið að fá, til að ná að leggja Haukaliðið. Í síðasta leiknum gegn Keflavík var Dagbjört [Dögg Karlsdóttir] frábær og Elín Sóley [Hrafnkelsdóttir] sem var ekki búin að ná sér á strik færði liðinu heilmikið. Þær þurfa á þessu að halda ef þær ætla að leggja Haukana,“ segir Ingi sem býst við mikilli spennu.

„Ég á von á mjög skemmtilegu einvígi, ég held að það sé mikið hungur hjá báðum liðum til að klára tímabilið með titli.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×