Innlent

Nýjar leiðir við að skjóta undan skatti

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Ferðaþjónustan veltir milljörðum, jafnt opinberlega sem og í svarta hagkerfinu.
Ferðaþjónustan veltir milljörðum, jafnt opinberlega sem og í svarta hagkerfinu. Vísir/Anton
 Það færist í aukana hér á landi að fyrirtæki í ferðaþjónustu komi sér undan greiðslu virðisaukaskatts með því að notast við erlendar bókunarsíður, fái greiðslur fyrir gistingu og aðra þjónustu greiddar inn á erlendra reikninga og komi þeim þannig hjá tekjuskráningu hérlendis.

„Já, við höfum auðvitað séð þetta,“ segir Guðrún  Jenný Jónsdóttir, sérfræðingur hjá Ríkisskattstjóra. Hún segir engan vafa leika á skattskyldunni. Sé varan eða þjónustan nýtt hér á landi, þá er hún virðisaukaskattskyld. „Fólk er að nota erlendar bókunarsíður, það er að taka við greiðslum inn á Paypal-reikninga og inn á erlenda bankareikninga,“ segir Guðrún.

Hún segir þetta ekki eingöngu tengjast bókunarsíðum heldur séu einnig dæmi um að fyrirtæki hér noti posa frá erlendum fyrirtækjum og greiðslur fari þá í gegnum erlenda færsluhirða og inn á erlenda bankareikninga. Aðspurð segir Guðrún að málum af þessum toga hafi verið vísað til Skattrannsóknarstjóra.

Bryndís Kristjánsdóttir, skattrannsóknarstjóri
„Við höfum vísað málum af þessum toga til þeirra sem við teljum að séu þess eðlis að þau eigi að sæta skattrannsókn og mögulega fara í refsimeðferð og gerum það með hliðsjón af þeim fjárhæðum sem við teljum að hafi verið skotið undan með þessum hætti.“

Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri staðfestir að mál af þessum toga hafi komið á hennar borð. Hún segist þó ekki treysta sér til að segja til um hversu útbreitt þetta sé en vissulega geri það skattayfirvöldum í mörgum tilvikum erfiðara fyrir þegar jafnvel hvorki skráningin né tekjurnar komi nokkurn tímann til landsins. 

Guðrún segir að undanfarin tvö ár hafi eftirlit Ríkisskattstjóra einkum beinst að því að skoða þá sem keypt hafi posa sem bjóða upp á þetta og nálgast fjármunina eftir öðrum leiðum en með greiðslukorti, til dæmis með millifærslum af erlendum reikningum yfir á íslenska reikninga. Hún segir eftirlitið erfiðara í þeim tilvikum sem erlend greiðslukort eru notuð því þá þurfi haldbetri upplýsingar um viðkomandi.

„En við notum öll þau tæki sem við höfum,“ segir Guðrún og nefnir tvísköttunarsamninga og upplýsingaskiptasamninga við skattayfirvöld í öðrum ríkjum


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×