Handbolti

Stefán: Karen ekki eins og herforingi heldur drottning

Þór Símon Hafþórsson skrifar
Stefán Arnarson er þjálfari Íslandsmeistara Fram.
Stefán Arnarson er þjálfari Íslandsmeistara Fram. Vísir/Eyþór
 „Þetta eru jöfn lið og svona verður þetta bara. Það var augnablikið í stöðunni 22-21 þegar Guðrún varði frá Önnu og við skoruðum 23-21. Þá var þetta eiginlega komið,“ sagði kátur Stefán Arnarson, þjálfari Fram, eftir frábæran, 28-22, sigur liðins á Val í Safamýrinni í dag.

Fram er því búið að jafna einvígið en staðan er núna, 1-1. Fram bætti leik sinn mikið frá því í tapinu í fyrradag.

„Þær lásu okkur vel í fyrsta leiknum sem við náðum að laga og ég er ánægður með það. Bæði og sóknar- og varnarlega vorum við að bæta okkar leik.“

Karen Knútsdóttir var frábær í liði Fram en hún skoraði 8 mörk í dag og stjórnaði liðinu eins og herforingi. Eða hvað?

„Ég er ekki sammála að hún stjórni leiknum eins og herforingi. Mér finnst hún stýra eins og drottning,“ sagði Stefán en Karen á allt hrós skilið eftir frammistöðu sína í dag.

Næsti leikur fer fram á mánudaginn og segir Arnar spennandi að sjá hvernig fer. Hann er ekki alveg jafn viss í sinni sök og móðir hans.

„Móðir mín, 77 ára, segir að Valur sé betra því þær eru með Kristínu og Önnu Úrsúlu og hún þekkir þær. En það verður gaman að sjá hvernig næsti leikur fer.“

Næsti leikur liðanna fer fram á Hlíðarenda á mánudaginn næsta og hefst leikurinn klukkan 19:30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×