Innlent

Varað við kafaldsbyl vestanlands í fyrramálið

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá kafaldsbyl á Holtavörðuheiði. Myndin er úr safni.
Frá kafaldsbyl á Holtavörðuheiði. Myndin er úr safni. Steingrímur Þórðarson
Veðurstofan varar við kafaldsbyl á Snæfellsnesi, Holtavörðuheiði og Borgarfirði í fyrramálið. Bylnum á að slota síðdegis þar en snjókoma gengur þá yfir Suðurland og suðvesturhornið.

Í athugasemd veðurfræðings á vef Veðurstofunnar kemur fram að búast megi við snjókomu og skafrenningi á heiðarvegum á Snæfellsnesi og Vestfjörðum og einnig á Norðvesturlandi í kvöld. Færð gæti þá spillst á þeim slóðum.

Spáð er norðaustan 8-15 m/s norðvestantil í fyrramálið en allt að 20 m/s á Snæfellsnesi. Annars staðar á vindur að vera hægari.

Snjókomubakki verður í fyrramálið frá Breiðafirði austur yfir landið og mun hann færast suður yfir landið. Stöku éljum er spáð norðanlands. Stytta á upp sunnanlands seint annað kvöld en gert er ráð fyrir éljagangi á Norðaustur- og Austurlandi.

Hiti verður yfir frostmarki sunnan- og vestanlands fram á kvöld og í fyrramálið en annars frost, 0 til 8 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×