Erlent

Grænlandsjökull ekki bráðnað hraðar í fjórar aldir

Kjartan Kjartansson skrifar
Hratt hefur gengið á Grænlandsjökul undanfarna áratugi eftir því sem loftið og hafið hlýnar vegna losunar manna á gróðurhúsalofttegundum.
Hratt hefur gengið á Grænlandsjökul undanfarna áratugi eftir því sem loftið og hafið hlýnar vegna losunar manna á gróðurhúsalofttegundum. Vísir/AFP
Ískjarnarannsóknir á vestanverðu Grænlandi benda til þess að ísinn þar bráðni nú hraðar en hann hefur gert í að minnsta kosti 450 ár og líklega í allt að þúsundir ára. Bráðnun Grænlandsjökuls hækkar yfirborð sjávar nú þegar um allt að millímetra á ári.

Hópur vísindamanna frá fjórum bandarískum háskólum boruðu og tóku sjö þrjátíu metra langa ískjarna úr hluta jökulsins þar sem ísinn bráðnar á sumrin en bráðnunarvatnið rennur ekki út í sjó heldur sjatnar ofan í ísinn og frýs aftur.

Þessi lög bráðnunarvatns sem hefur frosið aftur eru greinileg í ískjörnunum. Vísindamennirnir notuðu þau til þess að greina hversu mikið jökullinn hefur bráðnað og breytingar sem hafa orðið á bráðnuninni í gegnum aldirnar, að því er segir í umfjöllun Washington Post.

Þegar kjarnarnir voru bornir saman við aðra sem voru teknir á 10. áratug síðustu aldar og langan kjarna sem nær allt aftur til ársins 1547 kom í ljós að önnur eins bráðnun og nú á sér stað hefur ekki sést í 450 ár. Grein um rannsóknina birtist í tímaritinu Geophysical Research Letters.

Líklega ekki gerst í 7.000-8.000 ár

Erich Osterberg, jöklafræðingur frá Dartmouth-háskóla, segir að líklega sé hraði bráðnunarinnar nú enn fordæmalausari.

„Síðast þegar var eins hlýtt og nú fengum við mun meiri geislun frá sólinni vegna sporbrautar jarðarinnar og það var sennilega fyrir [7.000] eða 8.000 árum,“ segir hann.

Orsakir slíkar bráðnunar virðast hafa verið óvenjuhlýr sjór umhverfis Grænland og svonefndar fyrirstöðuhæðir sem héldu hlýju lofti yfir jöklinum. Rannsókn vísindamannanna nú bendir hins vegar til þess að bráðnunin fyrr á tímum hafi ekki verið eins mikil og nú. Sú hnattræna hlýnun sem hefur átt sér stað síðustu rúmu öldina valdi hraðari bráðnun nú.

Gríðarlegt magn ferskvatns er bundið í Grænlandsjökli. Bráðnaði ísinn allur hækkaði hann yfirborð sjávar um sex metra.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×