Innlent

Þrír yfirmenn hafa sagt upp hjá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða

Birgir Olgeirsson skrifar
Fjórðungssjúkrahúsið á Ísafirði sem heyrir undir Heilbrigðisstofnun Vestfjarða.
Fjórðungssjúkrahúsið á Ísafirði sem heyrir undir Heilbrigðisstofnun Vestfjarða. Visir/Pjetur
Þrír yfirmenn hafa sagt upp störfum hjá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða. Um er að ræða forstjóra, fjármálastjóra og mannauðsstjóra stofnunarinnar en framkvæmdastjóri lækninga segir í samtali við Vísi að uppsagnirnar hafi borist fyrir páska.

Forstjóri stofnunarinnar heitir Kristín B. Albertsdóttir en hún tók til starfa sem forstjóri 1. nóvember árið 2016. Á undan hafði hún starfað sem forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands.

Fjármálastjórinn heitir Erla Kristinsdóttir en hún var ráðin í september í fyrra. Hjá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða er litið á fjármálastjórann sem staðgengil forstjórans.

Mannauðsstjórinn heitir Anna Gréta Ólafsdóttir. Tilkynnt var um ráðningu hennar, sem gilti til fimm ára, 1. febrúar síðastliðinn.

Hallgrímur Kjartansson er framkvæmdastjóri lækninga við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða en hann segir í samtali við Vísi að þessari uppsagnir hafi borist stofnuninni fyrir páska. Hallgrímur sagði persónulegar ástæður liggja að baki uppsögn mannauðsstjórans en hann gæti ekki svarað fyrir ástæður uppsagna forstjórans og fjármálastjórans.

Hvorki náðist í Kristínu Albertsdóttur en Erlu Kristinsdóttur við vinnslu þessarar fréttar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×