Erlent

Tillaga Rússa um sameiginlega rannsókn sögð „öfugsnúin“

Kjartan Kjartansson skrifar
Búist er við því að niðurstaða úr efnagreiningu OPCW á taugaeitrinu liggi fyrir í næstu viku.
Búist er við því að niðurstaða úr efnagreiningu OPCW á taugaeitrinu liggi fyrir í næstu viku. Vísir/AFP
Bresk stjórnvöld lýsa tillögu Rússa um sameiginlega rannsókn á taugaeitursárás á rússneskan fyrrverandi njósnara á Bretlandi „öfugsnúna“. Ekki sé hægt að ætlast til þess að fórnarlamb árásar vinni með þeim sem stóð líklega að henni.

Þetta sagði John Foggo, starfandi fulltrúi Bretlands við Efnavopnastofnunina í Haag (OPCW). Bresk stjórnvöld hafa kennt Rússum um að taugaeitursárás á Sergei Skrípal, fyrrverandi njósnara, og dóttur hans í bænum Salisbury í mars. Rússnesk stjórnvöld hafa vísað því á bug og krefjast sameiginlegrar rannsóknar á vettvangi OPCW, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Foggo sagði að bresk stjórnvöld byggðu ályktun sína um ábyrgð Rússa á tegund taugeitursins sem var notað, þá staðreynd að Rússar hafi framleitt það, sögu pólitískra morða á vegum rússneskra stjórnvalda og á því mati að rússnesk stjórnvöld hafi gert liðhlaupa að skotmarki morðtilræða.

Rannsóknarstofa breska varnarmálaráðuneytisins sagði í gær að ekki væri hægt að greina nákvæman uppruna Novichok,-taugaeitursins sem var notað til að eitra fyrir Skrípalfeðginunum. Líkur væru hins vegar á því að þjóðríki hafi verið að verki.

Rússar hafa notað þessa niðurstöðu til að grafa undan ásökunum Breta. Evrópusambandið lýsti engu að síður yfir áframhaldandi samstöðu með niðurstöðum Breta. Ólíklegt að 41 aðildarríki OPCW fallist á tillögu Rússa um sameiginlega rannsókn.

Foggo segir jafnframt að Rússum hafi orðið margsaga um árásina og að þeir hafi gefið út yfirlýsingar sem ganga hver gegn annarri. Þar á meðal hafi verið „fáránlegar“ fullyrðingar að Svíar, Bandaríkjamenn eða jafnvel Bretar sjálfir hafi eitrað fyrir Skrípal.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×