Innlent

Einn látinn eftir umferðarslys við Vík

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Tildrög slyssins eru ókunn og eru til rannsóknar hjá lögreglunni á Suðurlandi
Tildrög slyssins eru ókunn og eru til rannsóknar hjá lögreglunni á Suðurlandi
Einn er látinn eftir umferðarslys á þjóðvegi 1 skammt austan við Vík í Mýrdal við svokallaðn Kötlugarð. Slysið varð laust eftir klukkan 20 í gærkvöldi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi.

Þrír voru í bifreiðinni sem fór nokkrar veltur og var ökumaður bifreiðarinnar fluttur með þyrlu Landhelgisgæslunnar á slysadeild, en var úrskurðaður látinn í nótt. Tveir farþegar voru í bifreiðinni sem slösuðust minna, en voru fluttir með sjúkrabifreiðum á slysadeild í Reykjavík.

Svo virðist sem allir hafi verið í öryggisbelti þegar slysið varð.

Tildrög slyssins eru ókunn og eru til rannsóknar hjá lögreglunni á Suðurlandi, ásamt tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sem einnig kom á vettvang.

Mikill viðbúnaður var á vettvangi vegna slyssins frá lögreglu, slökkviliði í Vík, sjúkraflutningum á Suðurlandi og Landhelgisgæslunni.

Það sem af er ári hafa 4 einstaklingar látið lífið í þremur umferðarslysum í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi, að því er segir í tilkynningu frá lögreglunni.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Alvarlegt umferðarslys við Vík

Bíll fór útaf þjóðveginum og valt með þeim afleiðingum að þrír slösuðust þar af einn mjög alvarlega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×