Innlent

Verða líklega að störfum fram á nótt

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Flytja þurfti slökkviliðsmann til aðhlynningar fyrr í morgun. Aðstæður á vettvangi eru gríðarlega erfiðar.
Flytja þurfti slökkviliðsmann til aðhlynningar fyrr í morgun. Aðstæður á vettvangi eru gríðarlega erfiðar. Vísir/Rakel Ósk Sigurðardóttir
Erfiðlega gengur að ná yfirlögum eldsins í Miðhrauni 4 og er enn að bætast við þann mikla fjölda slökkviliðsmanna sem eru á vettvangi. 

„Það gengur bara hægt,“ segir Rúnar Helgason varðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu í samtali við Vísi. Hann segir stöðuna óbreytta en mikill fjöldi slökkviliðsmanna er á staðnum að störfum og eru aðstæður gríðarlega erfiðar.

„Við erum ekki komnir með tök á eldinum í raun og veru.“

Eldurinn kviknaði á níunda tímanum í atvinnuhúsnæði þar sem Icewear og Geymslur eru til húsa. Hægt gengur að slökkva eldinn er talið að þakið gæti hrunið.

„Við verðum þarna í allan dag og fram á kvöld og fram á nótt líklegast,“ segir Rúnar.

Vísir/Rakel
Nokkrir slökkviliðsmenn hafa hlotið minniháttar meiðsl við störf á vettvangi í dag og á tólfta tímanum féll einn slökkviliðsmaður á milli hæða en slapp þó ómeiddur. Flytja þurfti einn slökkviliðsmann á sjúkrahús með minniháttar meiðsl.

„Strax í byrjun var einn fluttur til aðhlynningar,“ útskýrir Rúnar.

Ekki er vitað til þess að neinn hafi fengið reykeitrun en líkt og kom fram í tilkynningu frá lögreglu fyrr í dag er reykurinn eitraður og var fólk hvatt til að loka gluggum og hækka hita á ofnum. Rýma þurfti byggingar í nágrenni brunans.

Enginn af þeim sem voru í byggingunni þegar eldurinn kom upp þurfti aðhlynningu en ljóst er að mikið fjárhagslegt tjón verður vegna brunans. Fasteignafélagið Reginn, eigandi húsnæðisins sem nú brennur í Miðhrauni „telur allar líkur á að húsið sé nánast ónýtt,“ að því er fram kom í tilkynningu frá þeim fyrr í dag.

Fulltrúar Vísis eru á vettvangi og fylgjast með baráttu slökkviliðsins við eldinn í beinni textalýsingu og beinni útsendingu sem sjá má hér


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×