Umfjöllun og viðtöl: Haukar - KR 76-67 | Haukar gerðu nóg gegn vængbrotnum KR-ingum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Haukur Óskarsson átti frábæran leik fyrir Hauka í kvöld.
Haukur Óskarsson átti frábæran leik fyrir Hauka í kvöld. vísir/bára
Haukar eru komnir í 1-0 forystu í einvígi þeirra gegn KR í undanúrslitum úrslitakeppni Domino's-deildar karla eftir sigur á Ásvöllum í kvöld.

Haukar gáfu tóninn með því að skora 30 stig í fyrsta leikhluta og náðu þeir þar með undirtökum sem misstu svo aldrei aftur í leiknum. En í stað þess að fylgja eftir þessum öfluga sóknarleik í fyrsta leikhluta þá gáfu þeir KR-ingum ítrekað tækifæri til að koma sér aftur inn í leikinn.

KR-ingar minnkuðu muninn í fjögur stig í upphafi fjórða leikhluta eftir að hafa átt nokkur ágæt áhlaup í leiknum. En nær komust þeir ekki og Haukar sigldu fremur öruggum sigri í höfn að lokum.

Hvorki Brynjar Þór Björnsson né Jón Arnór Stefánsson spiluðu með KR-ingum í kvöld vegna meiðsla. Brynjar Þór var þó á bekknum en kom ekkert við sögu. Helgi Már Magnússon sneri hins vegar aftur í lið KR en hann hætti að spila körfubolta eftir síðasta tímabil. Hann náði ekki að gera nóg í kvöld, né heldu aðrir KR-ingar sem hafa oft virkað betur á mann en þeir gerðu í kvöld.

Haukarnir hafa að sama skapi oft fengið stærra framlag í sóknarleik sínum frá sínum hættulegustu mönnum, svo sem Kára Jónssyni og Paul Anthony Jones. En Finnur Atli Magnússon átti fínar rispur sem og Haukur Óskarsson sem var óvænt ekki í byrjunarliði Hauka í kvöld.

Af hverju unnu Haukar?

Í leik þar sem hvorugt lið spilaði sinn besta körfubolta gerðu Haukar nóg til að klára leikinn í kvöld. KR-ingar voru án lykilmanna og langt frá sínu besta en samt náðu Haukar ekki að drepa leikinn snemma. Það hlýtur að valda þeim einhverjum áhyggjum því það er ekki víst að KR-ingar munu alltaf spila jafn illa og þeir gerðu í kvöld.

Hverjir stóðu upp úr?

Haukur Óskarsson átti frábæra innkomu í lið Hauka og skoraði þrettán stig í öðrum leikhluta eftir að hafa verið óvænt á bekknum í upphafi leiks. Finnur Atli Magnússon átti einnig mikilvægar rispur, bæði í upphafi leiks sem gaf tóninn fyrir Hauka sem og í lokin þegar þeir tryggðu sér sigurinn. Kristján Leifur Sverrisson gerði líka sitt með níu stigum, átta fráköstum og blokkuðum skotum.

Hvað gekk illa?

Það var lélegur heildarbragur á liði KR í kvöld. Liðið tapaði boltanum átta sinnum á fyrstu tólf mínútum leiksins og það jafnaði sig aldrei á þessari slöku byrjun á leiknum. Það vantaði vissulega lykilmenn en aðrir gerðu alls ekki nóg til að fylla í skörð þeirra í kvöld.

Hvað gerist næst?

Liðin mætast næst í DHL-höllinni á mánudag og ljóst að ef KR-ingar ætla sér eitthvað úr þessari rimmu þá þurfa þeir að mæta mun grimmari til leiks en þeir gerðu í kvöld.

Ívar: Ánægður með vörnina
Ívar Ásgrímsson.Vísir/Bára
Ívar Ásgrímsson var eðlilega sáttur við sigur Hauka gegn KR í kvöld en hann segir líka að eftir sterka byrjun, þar sem Haukar skoruðu 30 stig í fyrsta leikhluta, hafi vantað að nýta tækifærin sem gáfust til stinga KR-inga almennilega af.

„Við töluðum um það í hálfleik að við áttum að vera 20 stigum yfir. En það vantaði hjá okkur að klára okkar sénsa,“ sagði Ívar.

„Um leið og við náðum einhverri forystu fórum við að spila þeirra leik. Við þurftum bara að vera rólegri í sókninni - spila sem lið og þá ráða þeir ekkert við okkur.“

Hann var ánægður með hvernig til tókst að stöðva Kristófer Acox og var heilt yfir sáttur með varnarleikinn í kvöld.

„KR skoraði tíu stig úr sniðskotum í fyrsta leikhluta og ég var ekki ánægður með það. En það lagaðist svo hjá okkur,“ sagði Ívar sem reiknar með allt öðruvísi KR-liði á mánudag.

„KR-ingar verða brjálaðir í næsta leik. Við þurfum að vera tilbúnir andlega fyrir hann.“

Finnur Freyr: Slakur leikur hjá okkur
Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari KR.Vísiri/Bára
„Satt best að segja var þetta slakur leikur af okkar hálfu. Við komum flatir út í leikinn, fengum 30 stig á okkur og vorum að elta allt til loka. Við komumst aldrei í gang,“ sagði Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari KR-inga, eftir leikinn í kvöld.

„Mér finnst í raun hálf ótrúlegt að við vorum í möguleika allan leikinnn í kvöld, miðað við hvernig spilamennskan var,“ sagði Finnur Freyr sem segist ekki hafa áhyggjur af því að hafa tekið leikmann, Helga Má Magnússon, inn í byrjunarliðið þrátt fyrir að hafa ekkert spilað með KR-ingum í vetur.

„Hans innkoma hefur ekki áhrif á flæðið. Mér líður eins og að hann hafi verið hér allan tímann. Málið er að við spiluðum illa sem lið - það er ástæðan fyrir tapi okkar í kvöld.“

„Ég hlakka til mánudagsins - það verður allt annar leikur,“ sagði hann enn fremur.

Brynjar Þór Björnsson og Jón Arnór Stefánsson spiluðu ekki með KR í kvöld vegna meiðsla. „Það voru smá líkur á því að þeir gætu spilað en það fékkst ekki grænt ljós á það. Það eru meiri líkur en minni að þeir spili á mánudag.“

Helgi Már: Hrikalega gaman að koma aftur
Helgi Már Magnússon.Vísir/Bára
Helgi Már Magnússon skoraði fimm stig í endurkomuleik sínum er KR tapaði fyrir Haukum í fyrsta leik liðanna í undanúrslitaeinvígi sínu í úrslitakeppni Domino's-deildar karla í kvöld.

„Þetta er svekkjandi því tækifærin voru til staðar. Við þurftum bara að grípa þau en það vantaði þetta extra hjá okkur,“ sagði Helgi Már eftir leikinn í kvöld.

Hann var að spila sinn fyrsta leik á tímabilinu en fannst ekki þrátt fyrir lágt stigaskor KR-inga í leiknum vanta stemninguna í liðið. „Stundum þarf bara móment til að klára þetta en það kom ekki. Ég hefði til dæmis getað hitt úr einu af þriggja stiga skotunum mínum, kannski að það hefði gert eitthvað fyrir okkar leik og farið smá skjálfti um Haukana.“

Helgi neitaði því ekki að það var ryð í honum enda langt síðan hann spilaði síðast. „Ég er ekki mínu besta formi. Það komu augnablik þar sem mér fannst ég vera klaufalegur og svo önnur þar sem mér leið bara nokkuð vel. Eins og við er að búast.“

„Þetta er samt hrikalega gaman - að vera kominn aftur af stað með mínum félögum og það í úrslitakeppninni. Ég gerði nú alls ekki ráð fyrir því að spila í vetur - það vantaði bara að vinna leikinn.“

Helgi Már flutti til Bandaríkjanna síðasta sumar en gerir ráð fyrir því að flytja aftur heim um áramótin. Hann klárar þó tímabilið með KR áður en hann heldur aftur utan.

Finnur Atli: Lágt stigaskor hentar okkur vel
Finnur Atli Magnússon.Vísir/Bára
Finnur Atli Magnússon átti fínan leik þegar Haukar unnu KR-inga í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum úrslitakeppninnar í kvöld.

„Þetta var allt öðruvísi en í rimmunni gegn Keflavík. Þeir létu finna mikið fyrir sér og við réðum ekki við það í tveimur leikjum. En við vissum að þetta yrði allt öðruvísi gegn KR,“ sagði Finnur Atli.

„Þeir eru góðir í því að hlaupa með boltann og við reyndum að passa upp á að það myndi ekki gerast. Þeir náðu að gera þetta í lok annars leikhluta og á tímabili í þriðja leikhluta - þeir byrjuðu að hlaupa og skiptast á skotum og körfum. Það er þeirra leikur en ekki okkar.“

„En um leið og við stilltum upp og náðum að spila eftir okkar höfði þá gekk þetta betur. Þetta var lágt stigaskor - það hentar okkur mjög vel.“

Finnur Atli gerir sér grein fyrir því að það vantaði mikið í lið KR í kvöld. „Við þurfum ekki að eiga okkar allra besta leik til að vinna KR eins og fyrir tveimur árum. Ég held að Jón Arnór [Stefánsson] komi inn í næsta leik og þá verður þetta allt öðruvísi lið KR-inga,“ sagði hann.

„Ef Jón spilar þá er hann týpan sem getur búið mikið til í kringum sig. Þá verður þetta allt öðruvísi og erfiðara. En við teljum okkur geta klárað þessa rimmu og það er það sem við ætlum okkur að gera.“

Helgi Már Magnússon í leiknum í kvöld.Vísir/Bára
Finnur Freyr Stefánsson.Vísir/Bára
Pavel Ermolinskij.Vísir/Bára
Haukur Óskarsson.Vísir/Bára
Kári Jónsson.Vísir/Bára
Björn Kristjánsson.Vísir/Bára
Sigurður Þorvaldsson og Paul Anthony Jones.Vísir/Bára
Björn Kristjánsson.Vísir/Bára
Kendall Pollard.Vísir/Bára
Haukur Óskarsson.Vísir/Bára
Davíð Kristján Hreiðarsson.Vísir/Bára
Kári Jónsson.Vísir/Bára
Haukur Óskarsson.Vísir/Bára
Kristinn Óskarsson.Vísir/Bára
Pavel Ermolinskij og Sigmundur Már Herbertsson.Vísir/Bára
Björn Kristjánsson.Vísir/Bára
Björn Kristjánsson.Vísir/Bára
Kristófer Acox.Vísir/Bára
Pavel Ermolinskij og Finnur Atli Magnússon.Vísir/Bára
Ívar Ásgrímsson, þjálfari Hauka.Vísir/Bára
Paul Anthony Jones.Vísir/Bára
Paul Anthony Jones.Vísir/Bára
Helgi Már Magnússon.Vísir/Bára
Kristófer Acox.Vísir/Bára
Stuðningsmenn Hauka.Vísir/Bára

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira