Fótbolti

Fengu sjálfan Cristiano Ronaldo í heimsókn í hádegismatnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo.
Cristiano Ronaldo. Vísir/Getty
Liðsmenn Sporting Lissabon heimsækja Atletico Madrid í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar í kvöld og þeir fengu sjálfir góða heimsókn fyrir leikinn.

Cristiano Ronaldo ákvað að kíkja á sína gömlu félaga í hádeginu en hann býr náttúrulega í Madrid og því stutt fyrir hann að fara.

„Sjáið hver kom og gaf okkur aukakraft fyrir leikinn í kvöld,“ skrifaði Sporting inn á Twitter-síðu sína.

Það fylgdu nokkrar myndir af Cristiano Ronaldo með leikmönnum og starfsfólki portúgalska félagsins.





Það er ekki slæmt að fá heimsókn frá besta knattspyrnumanni heims undanfarin tvö ár sem hefur byrjað árið í ár með stórskotsýningu í leikjum Real Madrid.

Cristiano Ronaldo skoraði magnað mark í Meistaradeildinni á þriðjudagskvöldið og sá til þess að Real Madrid er svo gott sem komið áfram í undanúrslit Meistaradeildarinnar.





Ronaldo lék með Sporting CP liðinu frá 2002 til 2003 eða þegar hann var aðeins sautján ára. Eftir sitt fyrsta tímabil með aðalliðinu þá keypti Sir Alex Ferguson hann til Manchester United.

Cristiano Ronaldo hefur spilað með Real Madrid frá 2009 hann hefur skorað 445 mörk í 430 leikjum með liðinu.

Leikur Atletico Madrid og Sporting Lissabon hefst klukkan 19.05 og verður sýndir beint á Stöð 2 Sport 4.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×