Körfubolti

Helgi Már: Hrikalega gaman að koma aftur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Helgi Már í leiknum í kvöld.
Helgi Már í leiknum í kvöld. Vísir
Helgi Már Magnússon skoraði fimm stig í endurkomuleik sínum er KR tapaði fyrir Haukum í fyrsta leik liðanna í undanúrslitaeinvígi sínu í úrslitakeppni Domino's-deildar karla í kvöld.

„Þetta er svekkjandi því tækifærin voru til staðar. Við þurftum bara að grípa þau en það vantaði þetta extra hjá okkur,“ sagði Helgi Már eftir leikinn í kvöld.

Hann var að spila sinn fyrsta leik á tímabilinu en fannst ekki þrátt fyrir lágt stigaskor KR-inga í leiknum vanta stemninguna í liðið. „Stundum þarf bara móment til að klára þetta en það kom ekki. Ég hefði til dæmis getað hitt úr einu af þriggja stiga skotunum mínum, kannski að það hefði gert eitthvað fyrir okkar leik og farið smá skjálfti um Haukana.“

Helgi neitaði því ekki að það var ryð í honum enda langt síðan hann spilaði síðast. „Ég er ekki mínu besta formi. Það komu augnablik þar sem mér fannst ég vera klaufalegur og svo önnur þar sem mér leið bara nokkuð vel. Eins og við er að búast.“

„Þetta er samt hrikalega gaman - að vera kominn aftur af stað með mínum félögum og það í úrslitakeppninni. Ég gerði nú alls ekki ráð fyrir því að spila í vetur - það vantaði bara að vinna leikinn.“

Helgi Már flutti til Bandaríkjanna síðasta sumar en gerir ráð fyrir því að flytja aftur heim um áramótin. Hann klárar þó tímabilið með KR áður en hann heldur aftur utan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×