Erlent

Bandaríkjastjórn refsar sjö rússneskum ólígörkum

Kjartan Kjartansson skrifar
Álfurstinn Oleg Deripaska er sagður einn þeirra sem refsiaðgerðir Bandaríkjastjórnar ná til.
Álfurstinn Oleg Deripaska er sagður einn þeirra sem refsiaðgerðir Bandaríkjastjórnar ná til. Vísir/AFP
Ríkisstjórn Donalds Trump Bandaríkjaforseta tilkynnti í dag um refsiaðgerðir gegn sjö rússneskum auðkýfingum með náin tengsl við Vladímír Pútín Rússlandsforseta vegna afskipta Rússa af forsetakosningunum árið 2016. Alls beinast aðgerðirnar að 24 rússneskum einstaklingum og fjórtán stofnunum.

Bandaríska blaðið Politico segir að á meðal þeirra séu Oleg Deripaska, milljarðamæringur, sem er sagður hafa tengsl við Paul Manafort, fyrrverandi kosningastjóra Trump. Manafort er einn þeirra sem hefur verið ákærður í svonefndri Rússarannsókn Roberts Mueller, sérstaks rannsakanda bandaríska dómsmálaráðuneytisins.

Þá beinast aðgerðirnar að Kirill Shamalov, tengdasyni Pútín. New York Times segir að auk ólígarkanna sjö séu sautján háttsettir embættismenn skotmark aðgerðanna.

„Rússneska ríkisstjórnin starfar sérstaklega til hagsbóta ólígarka og opinberrar valdastéttar. Rússneskir ólígarkar og valdastétt sem hefur hagnast á þessu spillta kerfi verða ekki lengur einangraðir frá afleiðingum aðgerða ríkisstjórnar þeirra til að valda óstöðugleika,“ segir Steven Mnuchin, viðskiptaráðherra Bandaríkjanna.

Fréttastofa ABC-sjónvarpsstöðvarinnar segir að fyrirtækin sem aðgerðirnar ná til séu í eigu ólígarkanna en einnig sé þar á meðal vopnasölufyrirtæki í eigu rússneska ríkisins og fjármálastofnun. Haft er eftir bandarískum embættismönnum að aðgerðirnar nú séu vegna „illviljaðra aðgerða“ Rússa um allan heim.

Eigur ólígarkanna í Bandaríkjunum eru frystar og Bandaríkjamönnum bannað að eiga viðskipti við þá.

Rannsaka mögulega aðkomu ólígarka að kosningaafskiptunum

Reuters-fréttastofan segir að aðgerðirnar sem viðskiptaráðuneyti Bandaríkjanna tilkynnti um í dag séu þær hörðustu sem Bandaríkjastjórn hefur gripið til gegn Rússum fram að þessu vegna tilrauna til að hafa áhrif á forsetakosningarnar.

Áður höfðu bandarísk stjórnvöld refsað nítján Rússum og fimm stofnunum, þar á með rússneskum leyniþjónustustofnunum, vegna tölvuárása.

Sjá einnig: Upplýsingahernaður háður úr „Tröllaverksmiðju“ í Pétursborg

Rannsókn Mueller er meðal annars sögð beinast að því hvort að rússneskir ólígarkar hafi veitt fé inn í framboð Trump, mögulega í gegnum bandaríska milliliði, fyrir forsetakosningarnar árið 2016. Slíkt er óheimilt samkvæmt bandarískum lögum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×