Umfjöllun: Ísland - Frakkland 26-28 | Strákarnir stóðu vel í heimsmeisturunum

Benedikt Grétarsson skrifar
Ómar Ingi Magnússon stóð sig vel á mótinu í Noregi
Ómar Ingi Magnússon stóð sig vel á mótinu í Noregi vísir/ernir
Íslenska karlalandsliðið í handbolta tapaði í dag 28-26 gegn heimsmeisturum Frakklands í lokaleik Íslands á sterku æfingamóti í Noregi. Vængbrotið lið Íslands gaf geysisterku liði Frakka hörkuleik en staðan að loknum fyrri hálfleik var 17-12, Frökkum í vil.

Elvar Örn Jónsson skoraði sjö mörk og var markahæstur í íslenska liðinu. Ómar Ingi Magnússon og Vignir Svavarsson skoruðu báðir fjögur mörk. markverðirnir Björgvin Páll Gústavsson og Viktor Gísli Hallgrímsson vörðu samtals átta skot.

Þær slæmu fréttir bárust fyrir leik að Aron Pálmarsson og Haukur Þrastarson væru lítillega meiddir og það var svo sannarlega ekki að hjálpa til gegn sterkasta liði heims.

Fyrri hálfleikur var eign Frakka og það var fátt sem benti til annars en að heimsmeistararnir myndu valta yfir Ísland með 10-12 mörkum í dag. Frakkar skoruðu auðveldlega fyrstu 30 mínútur leiksins og þrátt fyrir ágæta baráttu strákanna, virtust Frakkarnir vera númeri of stórir fyrir ungt lið Íslands.

Seinni hálfleikur var hins vegar mjög góður hjá íslenska liðinu. Elvar Örn Jónsson og Ómar Ingi Magnússon voru virkilega sterkir sóknarlega og miklu meiri grimmd einkenndi varnarleik liðsins.

Hægt og bítandi minnkaði Ísland muninn og þegar tæplega 10 mínutur voru eftir, var staðan 25-24 fyrir Frakka, sem virtust slegnir yfir óvæntri mótspyrnu íslensku unglinganna.

Sambland af óheppni, klaufaskap og óhagstæðri dómgæslu á lokakaflanum varð hins vegar til þess að Frakkar kláruðu dæmið en tæpara mátti það ekki standa hjá besta liði heims.

Strákarnir halda því frá Noregi með þrjú töp í þremur leikjum en helling af jákvæðri reynslu fyrir framtíðina.

Af hverju unnu Frakkar leikinn?

Frakkar eru með betra lið en Ísland, því eru flestir sammála. Vissulega vantaði ansi sterka pósta í þeirra lið en það má svo sannarlega líka segja um íslenska liðið. Frakkar gátu skellt í lás varnarlega í fyrri hálfleik en það forskot sem Frakkar náðu þá, átti stóran hlut í þessum nauma sigri. Þeir voru líka með heppnina með sér á lokakafanum.

Hverjir stóðu upp úr?

Gísli Þorgeir Kristjánsson og Elvar Örn Jónsson sýndu mikið áræði og þessir drengir eiga eftir að vera lykilmenn í landsliðinu næstu 12-15 árin, ef allt fer að óskum. Ómar Ingi Magnússon steig upp í seinni hálfleik. Alexander Örn náði nokkrum góðum stoppum í vörninni og best var líklega hrindingin á dómara leiksins, sem var eitthvað að þvælast fyrir okkar manni.

Hvað gekk illa?

Varnarleikurinn var alls ekki að virka sem skyldi í fyrri hálfleik. Frakkarnir opnuðu vörnina okkar án teljandi vandræða, ekki síst í hægra horninu þar sem Porte skoraði of mikið. Þetta batnaði mikið í seinni hálfleik.

Hvað gerist næst?

Ísland heldur bara áfram vegferð sinni í átt að betri tímum í handboltaheiminum. Það eru margir leikmenn í hópnum sem geta náð langt ef þeir halda rétt á spilunum og engin ástæða til að detta í svartsýni þrátt fyrir töpin þrjú í Noregi. Nú er bara að klára Litháen í forkeppni HM 2019 og fara bjartsýnir inn í þá keppni.

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira