Innlent

Helga Möller hefur ekki mikla trú á lagi Ara Ólafs

Sylvía Hall skrifar
Helga Möller er ekki hrifin af framlagi Íslendinga í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í ár.
Helga Möller er ekki hrifin af framlagi Íslendinga í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í ár. Mynd/Ernir
Lagið Our choice, framlag okkar Íslendinga í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, var tekið fyrir í þættinum Alla leið á RÚV í kvöld. Álitsgjafar þáttarins voru efins um möguleika lagsins og sagði Helga Möller að lagið væri gamaldags og sigur þess í undankeppninni hefði komið sér á óvart.

Helga, sem keppti fyrir Íslands hönd árið 1986 ásamt Pálma Gunnarssyni og Eiríki Haukssyni með lagið Gleðibankann, var ómyrk í máli þegar kom að því að ræða lögin sem kepptu um að að verða framlag Íslendinga í keppninni í ár:

„Ég var reyndar ekki hrifin af neinu lagi sem var í þessari keppni í ár. Það kom mér mjög á óvart hvað lögin voru óáheyrileg.“

Álitsgjafarnir hrósuðu Ara Ólafssyni fyrir flutning sinn á laginu og sögðu hann eiga framtíðina fyrir sér í söng. Hann væri efnilegur og næði góðri tengingu við áhorfendur. Hins vegar voru þeir ekki jafn hrifnir af laginu sjálfu og sagði Jóhannes Þór Skúlason, álitsgjafi þáttarins, lagið vera óeftirminnilegt.

„Mér finnst lagið alveg ótrúlega leiðinlegt, því miður. Mér finnst það óeftirminnilegt og ég held þess vegna að við eigum nánast engan séns á að komast upp. Það sem hægt er að gera fyrir lagið, það gerir Ari.“ sagði Jóhannes.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×