Erlent

Tugir sagðir hafa fallið í efnavopnaárás í Douma

Samúel Karl Ólason skrifar
Hjálparsamtök segja rúmlega 500 manns hafa leitað hjálpar vegna öndunarerfiðleika og sviða í augum.
Hjálparsamtök segja rúmlega 500 manns hafa leitað hjálpar vegna öndunarerfiðleika og sviða í augum. Vísir/AFP
Hjálparstarfsmenn og aðgerðarsinnar segja minnst 40 almenna borgara hafa fallið í efnavopnaárás á bæinn Douma í Austur-Ghouta í Sýrlandi í gærkvöldi. Hundruð eru sögð hafa leitað sér aðstoðar vegna öndunarerfiðleika og vegna sviða í augum. Þá hafa myndir og myndbönd af látnum börnum með froðu í öndunarfærum verið í dreifingu á samfélagsmiðlum.

Blaðamaður sem Guardian ræddi við segir heilu fjölskyldurnar hafa dáið og loftárásir hafi verið einkar þungar í gærkvöldi.

Ríkisstjórn Sýrlands hafnar ásökunum og segir uppreisnarhópinn Jaish al-Islam hafa búið fregnirnar til. Markmiðið væri að reyna að stöðva sókn stjórnarhersins og bandamanna þeirra gegn Douma. Þá hafa hernaðaryfirvöld Rússlands einnig haldið því fram að engin efnavopnaárás hafi verið gerð.

Douma er eini bærinn í Austur-Ghouta sem stjórnarherinn hefur ekki náð tökum á. Friðarsamkomulag hafði verið gert í bænum og stóðu viðræður um brottflutning uppreisnarmanna og borgara frá Douma yfir en þær virðast hafa mistekist og loftárásir hófust aftur á föstudaginn.

Utanríkisráðuneyti Bretlands hefur kallað eftir rannsókn á ásökununum og Bandaríkin segja að ríkisstjórn Sýrlands og bandamenn þeirra verði að vera dregnir til ábyrgðar, reynist ásakanirnar sannar, og koma verði í veg fyrir fleiri árásir af þessu tagi hið snarasta.

Hjálparstarfsmenn hafa á undanförnum vikum haldið því reglulega fram að klórgasi hafi verið varpað á svæðinu en nú er talið að sterkari efnum hafi verið beitt.

Sameinuðu þjóðirnar fóru fram á aðgang að Douma á miðvikudaginn og sögðu 80 til 150 þúsund borgara vera á svæðinu.

Í gær var nákvæmlega ár frá því að Bandaríkin skutu 59 Tomahawk eldflaugum að herflugvelli í Sýrlandi. Það var gert eftir efnavopnaárás á bæinn Khan Sheikhoun þar sem rúmlega 80 manns létu lífið. Rannsakendur Sameinuðu þjóðanna komust að þeirri niðurstöðu að ríkisstjórn Assad bæri ábyrgð á árásinni.


Tengdar fréttir

Á sjötta tug fórust í efnavopnaárásinni

Talið er að saríngasi hafi verið varpað á íbúa sýrlenska bæjarins Khan Sheikhoun. Sýrlenski herinn neitar því að hafa beitt efnavopnum. Stjórnarandstaðan fer fram á tafarlausa rannsókn öryggisráðs SÞ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×