Golf

Taugarnar héldu og Reed vann sitt fyrsta risamót

Ísak Jasonarson skrifar
Patrick Reed fagnar sigri í dag.
Patrick Reed fagnar sigri í dag. Vísri/Getty

Bandaríkjamaðurinn Patrick Reed sigraði á Masters risamótinu eftir æsispennandi lokahring. Reed hafði betur gegn Rickie Fowler og Jordan Spieth á endasprettinum en þetta er fyrsti risatitillinn hans.

Reed lék hringina fjóra á samtals 15 höggum undir pari og þann síðasta á höggi undir pari. Alls fékk hann fjóra fugla og þrjá skolla á lokahringnum og fékk mikilvæg pör þegar mest á reyndi.

Rickie Fowler endaði í öðru sæti í mótinu, höggi á eftir Reed eftir flottan lokahring upp á 67 högg.

Fowler hleypti spennu í mótið með því að ná fugli á átjándu holu og endaði hann þar með á fjórtán höggum undir pari. Það þýddi að Reed þurfti að spila sína lokaholu á pari, sem hann gerði eftir að hafa tvípúttað.

Samlandi hans, Spieth, lék besta hring mótsins og kom inn á 64 höggum. Á tímabili stefndi allt í að hann myndi jafna vallarmetið á Augusta National sem er 63 högg en skolli á lokaholunni kom í veg fyrir það.

Rory McIlroy, sem lék með Reed í lokahollinu, náði sér ekki á strik á lokahringnum og kom inn á 2 höggum yfir pari. Hann endaði mótið í 5. sæti á 9 höggum undir pari.

Fylgst var með lokahring mótsins í beinni textalýsingu Vísis sem má lesa hér fyrir neðan.


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.