Erlent

Orbán áfram við völd

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Viktor Orbán er umdeildur.
Viktor Orbán er umdeildur. Vísir/AFP
Fidesz-flokkur forsætisráðherra Ungverjalands fór með sigur af hólmi í þingkosningunum í Ungverjalandi sem haldnar voru í dag. Fyrstu tölur gefa til kynna að flokkurinn muni vera í meirihluta á ungverska þinginu.

Allt stefnir því í það að Viktor Orbán muni setjast á forsætisráðherrastól þriðja kjörtímabilið í röð. Kjörstöðum var lokað í kvöld en Reuters greinir frá því að samkvæmt fyrstu tölum muni flokkur Orbán vera með 134 sæti á hinu 199 sæta ungverska þingi.

Verði þetta endanleg niðurstaða kosninganna er ljóst að flokkurinn mun áfram vera með 2/3 af þingsætum á þinginu, svokallaðan ofurmeirihluta, sem gert hefur Orbán kleyft að setja umdeild lög sem forsætisráðherra.

Tölurnar gefa einnig til kynna að þjóðernisflokkurinn Jobbik verði í öðru sæti og hljóti 26 þingsæti og að Sósíalistaflokkurinn verði í þriðja sæti, með 20 þingsæti.

Kosningabaráttan hefur verið dramatísk, einkennst af njósnum, spillingu, lekum og falsfréttum. Hefur Orbán rekið harðlínustefnu í flóttamannamálum og þróað Ungverjaland í átt að því sem Orbán kallar „ófrjálslynt lýðræðisríki,“ líkt og fjallað var um á Vísi í dag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×