Sport

Khabib kallaði Conor aumingja og grætti vin hans: „Ætlarðu bara að slást við rútur?“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Khabib Nurmagomedov er meistari í léttvigt.
Khabib Nurmagomedov er meistari í léttvigt. vísir/getty

Khabib Nurmagomedov frá Dagestan varð aðfaranótt sunnudags léttvigtarmeistari í UFC þegar að hann vann Al Iaquinta sannfærandi á dómaraúrskurði í Brooklyn í New York.

Beltið var laust eftir að UFC ákvað að taka það af Conor McGregor sem hefur ekki stigið inn í UFC-búrið í tvö ár eða síðan hann varð léttvigtarmeistari og var þá fyrsti maðurinn til að vera meistari í tveimur þyngdarflokkum.

Þetta fór allt saman mjög illa í Conor eins og greint var frá fyrir helgi. Írinn kjaftfori mætti til Brooklyn og kastaði tryllu í rúðu á UFC-rútu með þeim afleiðingum að hann var handtekinn og leiddur fyrir dómara.

Nurmagomedov nýtti svo sannarlega tækifærið og urðaði yfir Conor í öllum viðtölum sem hann fór í eftir sigurinn og byrjaði strax í búrinu þegar að hann spjallaði við Joe Rogan með beltið um mittið.

„Iaquinta er alvöru „gangster.“ Hann mætti í búrið annað en Conor. Ætlar hann bara að slást við rútur? Ég vil berjast við alvöru gangestara,“ sagði Nurmagomedov sem er nú 26-0 sem atvinnumaður og búinn að vinna alla tíu bardaga sína í UFC.

Þessi magnaði bardagakappi var aðeins búinn að róa taugarnar þegar að hann fór svo í viðtal við ESPN eftir bardagann. Hann hélt samt áfram að drulla yfir Conor og fylgdarlið hans, aðspurður um þessa atburðarás alla sem átti sér stað fyrir helgi.

„Ég hef aldrei lent í þessu áður og þetta var skrítið. Það er ekki hægt að slást við mig þegar að ég er inn í rútu því öryggisliðið hleypir mér ekki út. Hann vissi alveg að það yrði erfitt að slást við mig í kringum allt þetta fólk,“ sagði Nurmagomedov.

„Ef hann vill berjast við mig þarf hann ekkert að gera nema að senda hvar og hvert ég á að mæta. Ég hef gert þetta alla mína ævi. Ég er frá Dagestan.“

„Liðsfélagar hans vita hver ég er. Þegar að ég hitti einn liðsfélaga hans um daginn tók ég í rólegheitum um höfuðið á honum og sagði að þeir ættu ekki að tala svona illa um mig. Þá þverneitaði hann fyrir að hafa talað illa um mig og fór næstum því að gráta,“ sagði Khabib Nurmagomedov.


Tengdar fréttir

Khabib nýr léttvigtarmeistari UFC

Khabib Nurmagomedov er nýr léttvigtarmeistari UFC eftir sigur á Al Iaquinta í nótt. Þar með hefur Conor McGregor formlega verið sviptur léttvigtartitli sínum.

Sjáðu Conor í handjárnum

Conor McGregor var leiddur út af lögreglustöð í Brooklyn í handjárnum rétt áðan og í dómssal.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.