Innlent

Segir að meta eigi ljósmæður að verðleikum

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra. Vísir/ernir
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir að meta eigi vinnuframlag ljósmæðra til launa og til samfélagslegrar virðingar. Þetta kom fram í svari hennar við fyrirspurn Guðjóns S. Brjánssonar, þingmanns Samfylkingarinnar um kjarabaráttu ljósmæðra.

„Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að vinnuframlag og starf ljósmæðra væri sérstaklega mikilvægt. Þarna er um að ræða kvennastétt sem sinnir konum á gríðarlega dýrmætum og mikilvægum tíma í þeirra lífi og mér finnst að það eigi að meta að verðleikum,“ sagði Svandís.

Guðjón lýsti meðal annars áhyggjum sínum af því að staðan í kjarabaráttu ljósmæðra kynni að kynda undir ugg og óöryggi hjá fjölskyldum.

 

Guðjón S. Brjánsson, þingmaður Samfylkingarinnar
Svandís sagði þó enga ástæðu til að hafa áhyggjur af því og að forstjóri Landspítala hefði fullvissað sig um að engu öryggi sé stefnt í uppnám á Landspítalanum.

„Enda umgangast ljósmæður sinn vinnustað af fullri ábyrgð. þannig að það er engin ástæða til þess, hvorki af háttvirtum þingmanni né öðrum að kynda undir ugg eða óöryggi hjá foreldrum.“

Sagðist hún hafa beitt sér í málinu í gegnum forstjóra Landspítalans til að freista þess að gera það sem hægt væri að gera til að bæta starfsumhverfi ljósmæðra og mögulega vaktaumhverfi ljósmæðra.

„Það hefur verið gert og því hefur verið spilað inn í þær kjaraviðræður sem nú eru í gangi. Ég vonast til þess að það verði til að hjálpa til við að leysa þessa viðkvæmu deilu og eins og landsmenn væntanlega allir þá vonast ég til að fundurinn 16. apríl verði árangursríkur.“


Tengdar fréttir

Neyðarástand gæti skapast á fæðingardeildum í sumar

Nokkrar af þeim ljósmæðrum sem hafa sagt upp störfum sínum hafa þegar ráðið sig til annarra starfa að sögn formanns kjaranefndar ljósmæðra. Ef ekki takist að semja í kjaradeilunni á næstu mánuðum gæti skapast neyðarástand á fæðingardeildum í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×