Körfubolti

Ívar: „Við erum betra liðið og þeir vita það“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Ívar Ásgrímsson, þjálfari Hauka.
Ívar Ásgrímsson, þjálfari Hauka. Vísir/Bára
Haukar töpuðu fyrir KR í leik 2 í undanúrslitum í Domino’s deild karla eftir framlengdan leik í Vesturbænum í dag.

„Auðvitað er ég svekktur með að hafa tapað þessu því við vorum með unnin leik en þetta er körfubolti. Við erum búnir að vinna svona leiki líka og þetta er gangur leiksins,“ sagði Ívar Ásgrímsson, þjálfari Hauka, eftir leikinn.

Það var í raun ótrúlegt að KR næði að vinna leikinn þar sem Haukar voru með forystuna lengst af og leiddu með 11 stigum þegar fimm mínútur voru eftir.

„Þeir komu ekki til baka. Við réttum þeim þetta. Við sýndum öllum í húsinu að við erum betra liðið og þeir vita það innst inni.“

„Nú þurfum við bara að mæta grimmir til leiks eins og við erum búnir að vera og klára 40 mínútur, ekki bara 38.“

Þrátt fyrir að Ívar hafi lýst því yfir að Haukar væru með betra lið vildi hann þó ekki segja að hans menn tækju næstu tvo leiki og kláruðu einvígið.

„Mér er alveg sama hvort við tökum tvo næstu eða hvað. Mér er nákvæmlega sama hvort þetta fari 3-1 eða 3-2, bara að við vinnum þetta.“

„Við vitum að þetta verður hörku barátta, við þurfum bara að halda áfram í því sem við erum búnir að vera að gera, það er að virka vel.“

„Þetta var hörkuleikur og við erum að spila á móti frábæru liði, fjórföldum Íslandsmeisturum. Þú kemur ekkert á þeirra heimavöll og valtar yfir þá. Mér fannst við vera mjög góðir í kvöld, en því miður þá fór þetta svona,“ sagði Ívar Ásgrímsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×